Knattspyrnuheimurinn var sleginn þegar fregnir bárust af því að argentínska knattspyrnugoðsögnin Diego Armando Maradona hefði andast í gær, sextugur að aldri. Maradona var í sérstöku uppáhaldi hjá Arnóri Guðjohnsen, fyrrverandi landsliðsmanni í knattspyrnu, en leiðir þeirra lágu saman nokkrum sinnum á æviskeiði Maradona.

„Það er mikið áfall að heyra þessi tíðindi og afar sorglegt. Þetta er leikmaður sem var í sérstöku uppáhaldi hjá mér og að mínu mati er hann besti knattspyrnumaður sögunnar.Hann var náttúruundur í knattspyrnunni og það var unun bæði að sjá hann spila og njóta þess heiðurs að vera inni á sama velli og hann. Maradona var listilega góður með boltann, en auk þess að geta skapað færi fyrir sjálfan sig gerði hann samherja sína betri, sem er frábær eiginleiki að búa yfir.

Fyrsta skipti sem ég varð vitni að knattspyrnusnilli hans var þegar ég var viðstaddur leik Argentínu við Holland í Bern í Sviss. Hann var þá ungur leikmaður sem var að brjótast fram á sjónarsviðið. Þarna var hann tæplega tvítugur og það var augljóst að þarna var goðsögn að fæðast,“ segir Arnór í samtali við Fréttablaðið um Maradona.

„Þegar ég var nýkominn til Anderlecht í Belgíu árið 1983 spiluðum við boðsleik við Barcelona í tilefni þess að verið var að vígja nýja stúka á vellinum okkar. Maradona spilaði þá með Barcelona í þeim leik og það sást bersýnilega þegar maður var á sama velli og hann hversu einstakur leikmaður hann var.

Ég sá hann svo sex árum síðar þegar ég mætti á leik Napoli og Bayern München í undanúrslitum í Evrópukeppni félagsliða. Þá tók ég einna helst eftir því hvernig hann hitaði upp. Hann rölti inn á völlinn skömmu fyrir leik, hélt boltanum á lofti og tók eitt víti.

Þegar út í leikinn var komið var hann svo langbestur á vellinum og fíflaði leikmenn Bayern München algerlega upp úr skónum. Samvinna hans og Careca í sóknarlínunni var algerlega frábær og hann mataði hann með geggjuðum sendingum eftir einleiki sína. 

Það eru forréttindi að hafa náð að spila á móti honum og sjá hann leika listir sínar með berum augum,“ segir hann.„Ég hitti hann svo fyrir leik Íslands og Argentínu á heimsmeistaramótinu í Rússlandi árið 2018. Þá spjallaði ég við hann í boðssal fyrir leikinn og það fór bara vel á með okkur.

Hann var kurteis og þægilegur í samskiptum sínum við mig en við rifjuðum upp þegar það stóð til að Maradona tæki við liði einhvers staðar á Arabíuskaganum og það voru þreifingar um að Eiður Smári myndi ljúka ferlinum þar undir hans stjórn. Það var gaman að hitta hann þarna í Moskvu,“ segir Arnór um kynni sín af honum utan vallar.

Bjarni Felixson, fyrrverandi íþróttafréttamaður hjá RÚV, lýsti fjölmörgum leikjum sem Maradona spilaði á ferli sínum. Bjarni á hlýjar minningar af knattspyrnuferli argentínska knattspyrnusnillingsins.

„Ég fylgdist með honum á heimsmeistaramótunum sem við vorum að sýna frá og hann var stórkostlegur fótboltamaður. Hann gat unnið leiki upp á eigin spýtur eins og hann sýndi hvað eftir annað. Við sýndum líka leiki hjá Napoli þar sem hann gerði frábæra hluti. Hann er einn af bestu knattspyrnumönnum allra tíma,“ sagði Bjarni Felixson, fyrrum landsliðsmaður í fótbolta og síðar íþróttafréttamaður til margra ára, aðspurður út í feril Maradona.