Hnefa­leika­goð­sögnin og tvö­faldi heims­meistarinn í þunga­vigt, Ty­son Fury er staddur hér á landi og í sam­tali við Frétta­blaðið segir hann ætlunina hafa verið að koma á bar­daga við Haf­þór Júlíus Björns­son. Hann hafði hins vegar flúið af landi brott og því sé Fury orðinn „kóngur Ís­lands.“

,,Ég kom hingað til þess að koma á bar­daga milli mín og Haf­þórs. Hann er því miður ekki hérna, hann flúði til Ítalíu. Hann vissi að ég væri á leiðinni til Ís­lands en á­kvað samt sem áður að fara til Ítalíu. Núna er ég búinn að verða mér úti um víkinga­hjálm og hef tekið yfir Ís­land. Ég er nýji kóngurinn á Ís­landi,“ segir Ty­son Fury í sam­tali við Frétta­blaðið.

Að­spurður hvort bar­dagi milli hans og Haf­þórs í hnefaleikahringnum væri mögu­leiki hafði Fury þetta að segja:

,,Ég kom hingað til þess að láta þann bar­daga verða að veru­leika. Það er mögu­leiki á því að hann verði í fram­tíðinni en ekki núna því Haf­þór er ekki á svæðinu til þess að ganga frá þessu.“

Þetta er í fyrsta skipti sem Fury kemur til Ís­lands. ,,Já þetta er í fyrsta skipti sem ég kem til Ís­lands. Ég kann mjög vel við þetta land og væri til í að koma hingað aftur þegar það er að­eins jóla­legra og kaldara. Ég tel að það yrði frá­bært.“

Hann virtist ekki vera með á hreinu að í ná­grenni Reykja­víkur mætti finna eld­gos. Þegar frétta­ritari spurði hvort hann myndi kíkja á Eld­gosið sagði hann: ,,Hvað er staðan á því núna?“

,,Það gæti verið að við kíkjum á það. Við ætlum í axarkast í kvöld og fáum okkur svo al­menni­legan víkinga kvöld­verð. Annað hefur ekki verið planað,“ segir Fury en að hans sögn er að­eins um stutta heim­sókn að ræða hér á landi.

Fury lét box-hanskana á hilluna eftir að hafa verið heims­meistara­titil sinn í þunga­vigt gegn Dilli­an Whyt­e í apríl fyrr á þessu ári. Hann er því ó­sigraður á sínum at­vinnu­manna­ferli en undan­farið hafa farið orð­rómar á kreik um að hann geti mætt Derek Chisora í endur­komu­bar­daga. Hver er staðan á því?

,,Staðan þessa stundina er sú að það virðist ekki ætla verða af þeim bar­daga,“ sagði Fury í sam­tali við Frétta­blaðið. ,,Chisora vill allt­of mikinn pening fyrir þann bar­daga og er í skítnum hvað það varðar.“