Argentínska blaðið Clarín heldur því fram að Leopoldo Luque einkalæknir fótboltagoðsagnarinnar Diego Armando Maradona sé grunaður um manndráp af gáleysi vegna fráfalls kappans.
Í frétt Clarín, sem er eitt stærsta dagblað landsins, kemur fram að gerð hafi verið húsleit á heimili og skrifstofu læknisins sem sinnti Maradona. Luque sinnti Maradona síðustu vikur, í kjölfar heilablóðfalls sem Maradona fékk fyrr í mánuðinum.
Segir í fréttinni að þrjátíu lögreglumenn hafi tekið þátt í aðgerðum. Eru dætur fóboltakappans sagðar hafa viljað fá upplýsingar um það hvaða lyf Luque gaf Maradona í aðdraganda dauðsfalls hans.
Maradona lést úr hjartaáfalli á miðvikudaginn en var eins og flestir vita ein skærasta stjarna fótboltaheimsins. Maradona var besti maðurinn á vellinum með argentínska landsliðinu, spænska stórliðinu Barcelona og ítalska félaginu Napoli.