Logi Geirsson, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta segir leikmenn landsliðsins hafa mikið að sanna í þeim tveimur leikjum sem fram undan eru gegn Tékkum, að heiman og heima á næstu dögum.
Ýmislegt hefur verið rætt í aðdraganda þessara leikja landsliðsins.
„Handboltinn, sér í lagi síðasta stórmót hjá íslenska landsliðinu, hefur verið lengi í kastljósi fjölmiðla. Þjálfaramálin hafa verið áberandi í deiglunni sem og að ákveðnum málum hafi verið lekið úr klefa landsliðsins.
Ég persónulega þekki ekki þær sögur, veit ekki hvað gekk á þar en einhverjir hafa sagt að klefinn hafi hreinlega lekið. Það eru einhverjar verstu fréttir sem ég hef heyrt. Það er náttúrulega bara þannig að þessi klefi hefur verið innsiglaður núna.
Það mun ekki leka orð úr þessum klefa og ég þekki það bara sjálfur frá mínum tíma í landsliðinu að maður sagði engum frá því sem gerðist innan klefans. Þetta er heilagasti staður liðsins, þarna gerist allt og öll samskipti fara þarna fram.“
Gagnrýnin eftir HM hafi ekki bara beinst að landsliðsþjálfaranum, Guðmundi Guðmundssyni.
„Það voru líka leikmenn sem fengu á sig gagnrýni.“