Íslenska ruðningsliðið Einherjar sem keppir í amerískum fótbolta mætir bandaríska liðinu Empire State Wolfpack í Kórnum í kvöld. Er þetta ellefti leikur Einherja en jafnframt sá fyrsti sem þeir leika gegn bandarísku liði.

Empire State Wolfpack er lið frá New York sem keppir sem hálf­atvinnumannalið í Bandaríkjunum. Þeir léku til úrslita í deildinni sinni á austurströnd Bandaríkjanna á síðasta tímabili og er um að ræða einn sterkasta mótherja sem Einherjar hafa mætt.

Þetta er annar leikur Einherja á þessu ári eftir 41-13 sigur á þýska liðinu Hof Jokers í síðasta mánuði. Íslenska liðið hefur verið á siglingu og unnið síðustu fjóra leiki sína en af tíu leikjum liðsins frá upphafi hafa Einherjar unnið sjö. Tímabilinu lýkur með leik gegn Kuopio Steelers frá Finnlandi í maí.

„Undirbúningurinn hefur gengið vel, það eru bara tvær vikur síðan við spiluðum síðast og við njótum góðs af undirbúningnum fyrir þann leik í dag. Í síðasta leik gekk allt upp á tíu sem gefur okkur mikið fyrir þennan leik,“ segir Bergþór Pálsson, leikstjórnandi (e. quarterback) Einherja. 

„Við sáum þá á æfingu, þessi leikur er hluti af undirbúningstímabili þeirra og þetta er gríðarlega sterkt lið. Maður hefur varla séð annað eins og það sem þeir sýndu á æfingunni, hver einasti leikmaður var eins og sá besti í liðunum sem við höfum verið að mæta. Þeir eru stærri, sterkari og fljótari en andstæðingar okkar til þessa en það verður gaman að prófa hvar við stöndum. Okkur hefur gengið vel að undanförnu og við förum inn í þetta til að vinna leikinn.“

Shaun Spencer, eigandi Empire State Wolfpacks, á von á erfiðum leik eftir að hafa skoðað lið Einherja.

„Við erum búnir að skoða leiki og fengum að fylgjast með æfingu hjá Einherja. Þeir eru með sterkt lið. Við þurfum að passa vel upp á leikstjórnandann þeirra, hann getur hlaupið og kastað og það eru öflugir varnarmenn innan hópsins,“ sagði Shaun sem tók því fagnandi að spila á Íslandi.

„Það hafa nokkrir spilað utan Bandaríkjanna en þetta er öðruvísi og spennandi tækifæri.“