Það ræðst á sunnudaginn kemur hvort Martin Hermannsson og samherjar hans hjá Alba Berlin ná að landa þýska meistaratitlinum í körfubolta en leikið er eftir óhefðbundnu keppnisfyrirkomulagi að þessu sinni vegna kórónaveirufaraldursins.Alba Berlin og Ludwigsburg leiða saman hesta sína í úrslitaeinvíginu.

Martin lék sömuleiðis til úrslita með Alba Berlin síðastliðið vor en þá laut liðið lægra haldi fyrir Bayern München.Martin hefur verið að glíma við meiðsli í baki í úrslitakeppni deildarinnar sem farið hefur fram síðustu vikurnar en hann hefur spilað með liðinu þrátt fyrir þau meiðsli.

Landsliðsmaðurinn lék einungis í tæp­ar fjórtán mín­út­ur þegar Alba Berlin tryggði sér sæti í úrslitunum með sigri gegn Old­en­burg á miðvikudagsinn. Á þeim tíma skoraði hann fimm stig, gaf sex stoðsend­ing­ar og tók tvö frá­köst.

„Þetta hafa verið mjög sérstakar vikur og ef ég á að segja eins og er þá myndi ég kjósa að keppa ekki aftur við svona aðstæður. Það hefur verið mikill dauður tími á hótelherberginu og ég sakna þess mjög að geta ekki hitt kærustuna mína og barnið mitt á milli leikja og æfinga,“ segir Martin í samtali við Fréttablaðið.

Telur Alba Berlin vera með sterkara lið

„Gæðin í körfuboltanum hafa hins vegar verið meiri en ég bjóst við og allar hlaupa- og snerputölur sem sjúkraþjálfarinn fær úr GPS-mælingum á okkur sýna að við séum í jafn góðu og jafnvel betra líkamlegu formi en á hefðbundnu tímabili. Mér hefur líka liðið vel í skrokknum ef frá er talið höggið sem ég fékk á mjóbakið,“ segir hann enn fremur.

„Ég skal alveg viðurkenna það að ég er ánægður með að leiktíðinni sé að ljúka. Við höfum ekki mátt yfirgefa hótelið nema klukkutíma í senn og erum undir miklu eftirliti. Þessi einangrun hefur tekið töluvert á andlega. Það er eins gott að hætt var keppni í EuroLeague. Það hefði verið ansi erfitt að gíra sig upp í að klára þá keppni,“ segir hann.

„Ef við leikum á eðlilegri getu þá munum við kára þetta einvígi en Ludwigsburg hefur komið á óvart í úrslitakeppninni með því að slá Bayern München út og þeir eru með sterka fjóra leikmenn sem þeir treysta mikið á.Vonandi náum við að klára þetta. Eftir þetta einvígi tekur svo við langþráð og óvenjulegt sumarfrí þar sem það eru engir landsleikir í sumar. Stefnan er að ferðast innanlands með fjölskyldunni,“ segir bakvörðurinn öflugi.

Alba Berlin hefur átta sinnum orðið þýskur meistari í körfubolta karla en liðið stóð síðast uppi sem sigurvegari árið 2008. Þar áður vann liðið þýska meistaratitilinn sjö ár í röð á árunum 1997 til 2003.Úrslitaeinvígið fer þannig fram að leiknir verða tveir leikir og það lið sem hefur betur í þeim leikjum samanlagt verður krýndur meistari.