Grein Söru Bjarkar Gunnarsdóttur um framkomu franska stórveldisins Lyon í hennar garð eftir að hún varð ófrísk hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli. Ein fremsta knattspyrnukona heims, hin bandaríska Megan Rapinoe, hefur nú lagt orð í belg.

Sara gagnrýnir viðbrögð Lyon við óléttu hennar harðlega. Félagið hætti að borga henni full laun og fór hún í mál við það, sem hún vann.

Fyrrum landsliðsfyrirliðinn var á mála hjá Lyon frá 2020-2022 en er nú hjá ítalska stórliðinu Juventus.

„Þetta er algjörlega til skammar hjá Lyon. Kúltúrinn hjá Lyon og í Frakklandi á enn langa leið í land. Þið elskið að tala um hversu mikið þið styðjið konur en dæmin sýna að svo er ekki. Ég bið ykkur um að vera félagið sem styður alltaf konur, ekki félagið sem gerði það einu sinni,“ skrifar Rapinoe beitt á Twitter, en Lyon hefur í gegnum tíðina verið þekkt fyrir að styðja vel við bakið á kvennaliði sínu.

Rapinoe á að baki hátt í 200 A-landsleiki fyrir bandaríska landsliðið og er risastórt nafn í heimi fótboltans.

Hún leikur með OL Reign í heimalandinu, en þar eru sömu eigendur og hjá Lyon.

Auk Rapinoe hefur fjöldi annara leikmanna sýnt Söru stuðning.