Þrefaldur skolli á sautjándu holu gærdagsins varð til þess að Haraldur Franklín Magnús missti af niðurskurðinum á Challenge Costa Brava á Áskorendamótaröð Evrópu með einu höggi.

Með því varð ljóst að Haraldur fær ekki þátttökurétt á lokamóti tímabilsins þar sem 45 efstu kylfingarnir á stigalistanum geta öðlast þátttökurétt á Evrópumótaröðinni.

Haraldur var í 46. sæti fyrir mótið og var því ljóst að með því að ná niðurskurði hefði hann farið langt með að tryggja sér þátttökurétt á lokamótinu í næsta mánuði.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson náði í gegnum niðurskurðinn en hann þarf að enda meðal efstu manna til að eiga möguleika á að komast á lokamótið.