Micah Parsons, varnartröll frá Dallas Cowboys, er væntanlegur hingað til lands í vor þar sem hann og Andre Cisco, varnarmaður Jacksonville Jaguars, halda námskeið fyrir ungmenni í amerískum ruðningi. Þrátt fyrir ungan aldur og að vera að ljúka öðru tímabili sínu í NFL-deildinni hefur Parsons stimplað sig inn sem einn besti varnarmaður deildarinnar.
„Þetta er ekkert smá nafn að fá hingað. Allir sem fylgjast með NFL-deildinni þekkja þetta nafn. Ég hlakka rosalega til að vera í kringum hann og hlusta á hann,“ segir Úlfar Jónsson, leikmaður og þjálfari hjá Einherjum, en hann kemur að skipulagningu námskeiðsins.
„Hann er einn besti varnarmaður deildarinnar og Cisco er byrjunarliðsmaður hjá Jaguars. Við hrukkum í kút þegar við heyrðum af áhuga þeirra á að halda þetta námskeið hérna á Íslandi. Þeir sem standa á bak við þetta halda árlega sumarbúðir í Evrópu, oftast í Þýskalandi, Danmörku og Finnlandi þar sem íþróttin nýtur meiri vinsælda, en íþróttin fer stækkandi hér á landi. Svo hjálpar það okkur að þekkja ritstjóra American Footall International sem hefur verið duglegur að skrifa um okkur undanfarin ár og hjálpað okkur að koma liðinu okkar á framfæri.“
Athygli vekur að námskeiðin eru fyrir unglinga.
„Þetta getur reynst gríðarlega mikilvægt. Við erum bara með ákveðna reynslu en þarna kemur maður sem varð stjarna strax í háskólaboltanum. Við erum með efnilega unglinga sem eru að horfa á möguleikann á að fara út á skólastyrk og jafnvel komast að í NFL-deildinni einn daginn og þetta gæti reynst dýrmætt í þessari vegferð.“
Úlfar segir að þarna verði um leið þjálfarar frá háskólum sem opni möguleikann á að íslenskir leikmenn komist á skólastyrk.
„Þarna eru líka að koma þjálfarar frá menntaskólum og háskólum í Bandaríkjunum, það gefur þessum strákum meiri sýnileika. Það er komin heilmikil eftirvænting hjá yngri kynslóðinni að bíða eftir þessu.“