Ásgeir Örn Hallgrímsson sem lék á sínum tíma 247 landsleiki og var hluti af silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum 2008 og bronsliði Íslands á EM 2010 segir raunhæft að skoða að EM verði flautað af vegna Covid-19 smita innan leikmannahópa á mótinu.

Þetta kom fram í EM hlaðvarpi Seinni bylgjunnar þar sem Stefán Árni Pálsson, þáttastjórnandi Seinni bylgjunnar, æddi við Ásgeir og Róbert Gunnarsson, fyrrum landsliðsmennina um stöðuna á mótinu.

„Það er bara mjög raunhæft að mótið verði flautað af því annar hver maður er smitaður og liðin lömuð. Þá verður mótið ómarktækt,“ sagði Ásgeir Örn í samtali við EM-hlaðvarpið.

Sex leikmenn íslenska liðsins greindust smitaðir í aðdraganda leiksins gegn Dönum og var Ísland því ekki með fullskipaðan bekk í gærkvöld.

Fjórir reynslumestu leikmenn liðsins misstu af leiknum.

Rúmlega hundrað leikmenn hafa greinst smitaðir á mótinu og hafa Þjóðverjar og Króatar átt í stökustu vandræðum að manna leikmannahópa sína á milli leikja vegna nýrra smita.

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Íslands, gagnrýndi mótshaldara fyrir kæruleysi í sóttvörnum með því að staðsetja liðin á opnu hóteli með ferðamönnum á dögunum.