Wojciech Szczesny hefur heldur betur átt gott HM með pólska landsliðinu í knattspyrnu sem hefur nú tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum HM í Katar. Szczesny hefur stigið upp á stórum stundum og meðal annars varið tvær vítaspyrnur til þessa á mótinu, ein þeirra kom frá argentínsku knattspyrnugoðsögninni Lionel Messi.
Tvísýnt var hvort að Szczesny myndi ná að uppfylla draum sinn um að verða atvinnumaður í knattspyrnu eftir furðulegt slys sem átti sér stað þegar að hann var á styrktaræfingu. Slys sem endaði með því að bein í báðum handleggjum Szczesny brotnuðu.
The Sun greinir frá en Szczesny, sem var 17 ára á þessum tíma, var staðráðinn í að láta þetta ekki binda enda á sinn feril. Flestir knattspyrnuáhugamenn vita hvernig ferill hans hefur þróast síðan þá.
Szczesny hefur verið á mála hjá stórliðum á borð við Arsenal og Juventus og nú er hann lykilleikmaður í pólska landsliðinu.