Eiginkona Miles Bridges sem var handtekinn í gær vegna gruns um heimilisofbeldi greinir frá hræðilegu ofbeldi á samskiptamiðlum sínum í dag. Mychelle Johnson greindi frá þessu á Instagram ásamt því að birta myndir.

Bridges var handtekinn aðfaranótt fimmtudags í Los Angeles en hann varð samningslaus síðar um kvöldið.

Hann átti von á að geta valið úr rausnarlegum samningstilboðum eftir góða frammistöðu undanfarin ár en nú er óvíst með framhald hans í deildinni.

Johnson birtir myndir af áverkum á andliti, eyra ásamt marblettum á höndum og fótum ásamt áverkavottorði sem sýnir fram á áverka á nefi, hálsi og staðfestingu á heilahristing (e. concussion).

Í færslunni segir hún að Bridges hafi tekið hana hálstaki þangað til það leið yfir hana og birtir myndskeið af syni þeirra að tala um það þegar Bridges réðst á Johnson.