Helgi Fannar Sigurðsson
Fimmtudagur 11. ágúst 2022
08.30 GMT

Staða enska knattspyrnufélagsins Manchester United hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Stuðningsmenn félagsins eru að fá nóg af eigendum þess, Glazer-fjölskyldunni, en rekstur hennar á félaginu hefur skilið það eftir skuldum vafið, án þess þó að eigendurnir hafi fjárfest mikið til að bæta leikmannahópinn eða innviði félagsins. Fréttablaðið fékk Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóra Greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka, til að fara yfir stöðu United, ræða vandamál félagsins og skoða framtíð þess.

„Ef þetta væri bara eitthvað eitt sem væri að hjá þessu félagi væri hægt að benda á það og laga það,“ segir Björn. United tapaði fyrsta leik tímabilsins gegn Brighton á heimavelli um síðustu helgi, 1-2. Stuðningsmenn eru allt annað en sáttir. „Ástæðan fyrir þessum ofboðslegu viðbrögðum við einum leik er mikið undirliggjandi gremja og óþolinmæði á meðal stuðningsmanna, sem á alveg rétt á sér. Það er búið að ráða fjölda þjálfara síðan Ferguson fór, það er búið að kaupa leikmenn og svo framvegis. Kveikiþráðurinn í klúbbnum er gífurlega stuttur. Tímabilið er eins leiks gamalt og það er bara útfarartónlist á Old Trafford. Það er svolítið svakalegt.“


Tímabilið er eins leiks gamalt og það er bara útfarartónlist á Old Trafford


Eignarhaldið klárt vandamál

„Það er ekkert hægt að líta fram hjá því að eignarhaldið á Manchester United er vandamál. Það er að hafa áhrif inn á völlinn. Glazer-fjölskyldan hefur ekki fjárfest nógu vel í klúbbnum, hafa leyft þessum stórkostlega leikvangi að drabbast niður,“ segir Björn og á þar við hinn sögufræga Old Trafford.

Björn segir United ekki með nógu skýra stefnu á leikmannamarkaðnum, eitthvað sem margir samkeppnisaðilar hafa. „Þess vegna eru stuðningsmenn United að horfa á félög, sem þeim á ekki að finnast minni, Arsenal, Tottenham og Liverpool sem dæmi, sigla fram úr þeim á leikmannamarkaðnum.“

„Ef ég reyni að svara þessari ótrúlega flóknu spurningu: Hvað er að hjá Manchester United? Er það kannski þetta tvennt, annars vegar er eitthvað bogið á leikmannamarkaðnum og hitt er að eignarhaldið er dragbítur á félaginu.“


Þegar lið veldur vonbrigðum í svona langan tíma, þá hefur enginn þolinmæði fyrir því að hlutirnir reddist seinna


United hefur ekki náð þeim hæðum sem það náði undir stjórn Sir Alex Ferguson, þó liðið hafi átt nokkur fín tímabil frá því hann fór fyrir næstum áratug síðan. Það veldur því að félagið þarf að finna skammtímalausnir í leikmannamálum þegar illa gengur, eitthvað sem virkar strax. Þetta getur leitt af sér vandamál.

„Þegar lið veldur vonbrigðum í svona langan tíma, þá er engin þolinmæði fyrir því að hlutirnir reddist seinna. Ég get ímyndað mér að hjá félögum sem hefur vegnað vel, Manchester City, Liverpool og jafnvel Chelsea, þá komist klúbburinn miklu frekar upp með það gagnvart sínum stuðningsmönnum að fjárfesta í leikmönnum sem þurfa ekki endilega að vera orðin stór nöfn á sama tímabili, það sé allt í lagi að fjárfesta til framtíðar, vegna þess að liðinu er hvort sem er að ganga vel. Hjá Manchester United er alltaf eins og það sé verið að reyna að slökkva elda. Það er verið að fá þjálfara til að bjarga ofboðslega slæmri stöðu, kaupa leikmenn til að bjarga vörninni, skora mörkin og svo framvegis.“

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóra Greiningar og fræðslu hjá Íslandsbanka

Ferguson tókst að stoppa í götin

Ferguson náði, eins og flestir vita, stórbrotnum árangri með Manchester United. Það gerði hann þrátt fyrir að hafa unnið með Glazer-fjölskyldunni síðustu átta ár sín hjá félaginu. Hvers vegna hafði það ekki eins mikil áhrif á gengi liðsins innan vallar þá og það gerir nú.

„Auðvitað þarf að horfa í tímann. Manchester United var hlutfallslega, miðað við önnur lið í Evrópu, stærra en það er núna, þannig staðan var betri, leikmannahópurinn var góður. Hann var mjög brútal í því að henda leikmönnum á besta aldri í burtu og taka aðra inn, gera eina til tvær breytingar á byrjunarliðinu á hverju einasta tímabili. Menn ráku upp stór augu þegar Jaap Stam fór eða Ruud van Nistelroy, en alltaf náði hann að halda dampi með þetta frábæra lið. Hann lenti ekki í þessu sem hefur gerst síðan, nema með örfáum undantekningum,“ segir Björn.


Þetta allt veldur því að það er erfiðara að reka þetta félag


Glazer-fjölskyldan tók 600 milljóna punda lán til að kaupa United á sínum tíma. Eigendurnir skulda enn þessa sömu upphæð, sautján árum síðar. Þá hafa þeir kostað félagið um 1,5 milljarð punda.

„Þetta var skuldsett yfirtaka á klúbbnum. Það í sjálfu sér setur þannig skuldabagga á félagið á hverju einasta ári að það hefur verið að leka peningum í formi vaxtagreiðslna. Til viðbótar við það hafa þeir verið að taka út arð. Þeir hafa tekið 150 milljónir punda út úr klúbbnum í formi arðgreiðslna og haldið félaginu gríðarlega skuldsettu, þrátt fyrir hækkandi tekjur á undanförnum tveimur áratugum. Félagið er búið að borga yfir 700 milljónir punda í vaxtagreiðslur síðan Glazer-fjölskyldan keypti það. Þetta allt veldur því að það er erfiðara að reka þetta félag. Þetta þýðir að ef félagið selur leikmann á fimmtíu milljónir punda og næsta lið gerir það sama, þá getur hitt liðið keypt annan leikmann fyrir fimmtíu milljónir punda en United bara fyrir fjörutíu. Það er mikill munur þar á.“

Avram Glazer í stúkunni á Old Trafford
Fréttablaðið/Getty Images

Kórónuveiran stríddi Glazer-fjölskyldunni

Þó segir Björn að kórónuveirufaraldurinn hafi gert Glazer-fjölskyldunni lífið leitt. „Þeir voru búnir að borga skuldirnar aðeins niður, þetta var komið niður í 400 milljónir punda en er aftur komið upp í 600. Það eru gríðarlegir fjármunir. Til að setja þetta í samhengi er það helmingur af skuldum Barcelona, sem er að fara með það félag á hausinn.“

Þó staða United sé slæm skuldar félagið ekki mest allra. Það þarf þó að taka marga þætti inn í myndina er skuldir eru til umræðu.

„Flest félögin sem við getum borið þá saman við skulda mikið af því þau hafa fjárfest. Tottenham skuldar mikið því félagið var að byggja nýjan völl, eins með Arsenal. En United er að horfa á Old Trafford drabbast niður. Það er mikið áhyggjuefni, að skuldirnar sem United er að bera tengjast engu nema bara hverjir eiga klúbbinn,“ segir Björn.

Björn var spurður út í það hversu mikil bein áhrif hann teldi Glazer-fjölskylduna hafa á gengi United inni á vellinum.

„Það er algjörlega óumdeilt að hvernig eigendurnir hafa hagað sér hefur gert reksturinn erfiðari. Það hefur gert alla tilburði United á leikmannamarkaðnum erfiðari. Ef félagið hefði ekki skuldað svona mikið, eru allar líkur á að þeim hefði gengið betur inni á vellinum,“ segir hann.

Hefur ekki teljandi áhyggjur af framtíðinni

Björn segir þó jafnframt að ekki sé hægt að skella allri skuldinni á eigendur. „Auðvitað er hægt að skoða hverju hefur verið eytt í leikmenn. Ber Glazer-fjölskyldan til dæmis ábyrgð á þessu heimsmeti í lélegum félagaskiptum í kringum Paul Pogba? Ég held ekki,“ segir hann, en Pogba fór frítt frá United til Juventus fyrr í sumar. Félagið lét hann einnig fara frítt til Juve árið 2012, en keypti hann aftur í millitíðinni fyrir 90 milljónir punda. „Það er meira en eitthvað eitt, en eigendurnir eru kjarninn í þessu. Þeir eru sennilega skýrasta dæmið um hvað er að hjá þessu félagi.“

Björn telur framtíð United ekki í hættu þrátt fyrir að staðan sé dimm eins og er. Félagið þarf þó að halda rétt á spöðunum héðan af.

„Liðið má ekki valda vonbrigðum til langs tíma. Þá er það að tefla fjármunum í hættu. En þetta virðist enn hafa aðdráttarafl, skapa þessar miklu tekjur, eru að spila í ensku úrvalsdeildinni og Evrópukeppnum. Á meðan hefur það öll tæki og tól sem þurfa til að eiga rosalega bjarta framtíð. Ég hef ég engar áhyggjur af framtíð Manchester United. Það er eiginlega ekki hægt að gera verr en þeir hafa verið að gera. Peningalega séð lifir þetta alveg af, en staðan yrði miklu betri ef aðrir eigendur kæmu inn.“

Athugasemdir