John W. Henry, eig­andi enska úr­vals­deildar­liðsins Liver­pool, hefur beðið stuðnings­menn liðsins opin­ber­lega af­sökunar á þeirri á­kvörðun fé­lagsins að taka þátt í Ofur­deild Evrópu. Öll ensku fé­lögin sem voru meðal stofn­liða deildarinnar hafa nú dregið þátt­töku sína til baka.

Mikil reiði braust út á mánu­dag þegar það spurðist út að tólf af stærstu fé­lags­liðum Evrópu myndu stofna svo­kallaða Ofur­deild. Stuðnings­menn víða brugðust ó­kvæða við og sökuðu fé­lögin um græðgi.

Manchester City dró sig út úr Ofur­deildinni síð­degis í gær og í kjöl­farið fylgdu hin ensku liðin: Chelsea, Liver­pool, Manchester United, Arsenal og Totten­ham. Hinn um­deildi Ed Woodward, stjórnar­for­maður Manchester United, til­kynnti skömmu síðar að hann væri hættur hjá fé­laginu.

John W. Henry kom fram í mynd­bandi í morgun þar sem hann talaði til stuðnings­manna Liver­pool. Viður­kenndi hann að fé­lagið hefði brugðist þeim og hann væri á­byrgur fyrir því. Hann sagði ljóst að Ofur­deildin hefði aldrei getað orðið að veru­leika án stuðnings frá fólkinu. „Síðustu 48 tímana hafið þið látið þá skoðun skýrt í ljós. Við heyrðum í ykkur, ég heyrði í ykkur.“

Þá beindi hann af­sökunar­beiðni sinni sér­stak­lega að knatt­spyrnu­stjóranum Jur­gen Klopp sem hafði áður lýst sig mót­fallinn hug­myndum um Ofur­deild. Klopp er í miklum metum hjá stuðnings­mönnum Liver­pool enda náð frá­bærum árangri á undan­förnum árum. Hann bað leik­menn einnig af­sökunar og sagði að þeir hefðu ekkert haft með á­kvörðun um stofnun deildarinnar að gera.