Eiði Ben Eiríkssyni hefur verið sagt upp störfum sem þjálfari Þróttar Vogum sem leikur í Lengjudeild karla. Uppsögnin kemur þegar að aðeins fjórar umferðir hafa verið leiknar í deildinni en Þróttarar tilkynna um þessa ákvörðun í fréttatilkynningu til fjölmiðla.

,,Stjórn Knattspyrnudeildar Þróttar þakkar Eið fyrir gott samstarf undanfarna mánuði og óskar honum velfarnaðar í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Þróttur Vogum hefur nú þegar hafið leit að nýjum þjálfara. Brynjar Gestsson og Andy Pew munu stýra næstu æfingum eða þangað til nýr þjálfari kemur til starfa," segir í fréttatilkynningu frá Þrótturum.

Eiður tók við liðinu fyrir yfirstandandi tímabil eftir að Hermann Hreiðarsson fyrrum þjálfari liðsins var ráðinn sem þjálfari ÍBV.

Þróttur Vogum er sem stendur í 11. sæti Lengjudeildarinnar með 1 stig eftir fjóra leiki.