Fyrr í dag bárust fréttir af því að Eiður væri grunaður um ölvunar­akstur. Í kjöl­farið fundaði stjórn FH um fram­haldið og nú stað­­festir félagið nýjustu tíðindi.

Heimildir Frétta­blaðsins herma að í morgun hafi æðstu stjórn­endur Fim­leika­fé­lagsins fundað og rætt al­var­lega stöðu fé­lagsins og hvort þjálfari liðsins þurfi að víkja. Á­stæðan fyrir því að starf hans var til skoðunar sé vegna meints ölvunar­aksturs hans.

Yfirlýsing FH í heild sinni:

Eiður Smári Guðjohnsen, þjálfari meistarflokks karla, hefur ákveðið í samráði við stjórn knattspyrnudeildar FH að stíga til hliðar af persónulegum ástæðum.

Eiður Smári biður um svigrúm til að vinna í sínum málum og báðir aðilar vonast eftir því að sú vinna verði árangursrík og að Eiður Smári snúi aftur í þjálfarateymi FH í náinni framtíð.

Eiður var ráðinn þjálfari FH þann 19. júní fyrr á þessu ári og gerði tveggja ára samning við fé­lagið. Hann tók við starfinu af Ólafi Jóhannes­­syni en það hefur gengið afar illa hjá FH á tíma­bilinu og situr liðið nú í fall­­sæti þegar fjórar um­­­ferðir eru eftir af tíma­bilinu.

Síðasti leikur FH undir hans stjórn endaði með 2-1 tapi á úti­velli gegn ÍBV á Há­steinsvelli.

Eiður hafði áður þjálfað FH með Loga Ólafs­syni tíma­bilið 2020 og skiluðu þeir FH í annað sæti efstu deildar.

Stoppaði stutt í Hafnarfirði

Eftir það var til­kynnt um enda­lega ráðningu Eiðs sem aðal­þjálfara FH. Sú ráðning stóð hins vegar stutt yfir því seinni part 2020 kom kallið frá ís­lenska lands­liðinu og gerðist Eiður þar að­stoðar­þjálfari Arnars Þórs Viðars­sonar.

Mál Eiðs til skoðunar

Þann 12. júní sendi KSÍ frá sér stutta tilkynningu þar sem sambandið sagðist vera með málefni Eiðs Smára Guðjohnsen til skoðunar eftir orðróm um að starf hans sem aðstoðarþjálfari landsliðsins hengi á bláþræði.

Málið varðaði myndband sem fór í dreifingu á samfélagsmiðlum þar sem Eiður sést kasta af sér vatni á Ingólfstorgi. Morgunblaðið greindi frá því um morguninn þennan sama dag að framtíð Eiðs Smára væri í hættu vegna myndbandsins. Í þeirri frétt kom fram að sambandið væri búið að setja Eiði afarkosti, að fara í áfengismeðferð eða að missa starfið sem annar þjálfari landsliðsins.

Áminntur í starfi

Fjórum dögum síðar, nánar tiltekið þann 16. júní árið 2016 var það staðfest að Eiður hefði fengið skriflega áminningu í tengslum við starfs­skyldur sínar hjá KSÍ og fer í tíma­bundið leyfi frá störfum. Hann myndi engu að síður snúa aftur af fullum krafti með lands­liðinu í verk­efnum haustsins. Eiður sneri seinna aftur í starf sitt sem aðstoðarlandsliðsþjálfari.

Gengið frá starfslokum

Þann 23. nóvember árið 2021 barst til­kynning frá Knatt­spyrnu­sam­bandi Ís­lands að gengið hafi frá sam­komu­lagi við Eið um starfs­lok hans.

Í yfir­lýsingu Eiðs í til­kynningunni segir að á­kvörðun um starfs­lok hans hafi verið tekin með hags­muni hans, lands­liðsins og KSÍ að leiðar­ljósi.

Heimildir DV hermdu að brott­hvarf Eiðs hafi tengst gleð­skap á vegum Knatt­spyrnu­sam­bands Ís­lands sem sam­bandið bauð til eftir leik ís­lenska karla­lands­liðsins gegn Norður-Makedóníu er liðið lauk keppni í undan­keppni Heims­meistara­mótsins í knatt­spyrnu fyrr í mánuðinum.

Einn besti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi

Eiður Smári er einn besti knattspyrnumaður Íslands frá upphafi og á hann að baki afar farsælan sem slíkur. Hann vann fjölmarga titla á sínum ferli og standa tímabil hans með stórliðum Chelsea og Barcelona upp úr.með m.a. Chelsea og Barcelona.

Eiður Smári í leik með Barcelona árið 2006
Fréttablaðið/GettyImages

Hann á einnig langan landsliðsferil að baki og spilaði 88 landsleiki fyrir Ísland, meðal annars á fyrsta stórmóti karlalandsliðs á EM í Frakklandi árið 2016. Eiður Smári er markahæsti leikmaður íslenska karlalandsliðsins frá upphafi ásamt Kolbeini Sigþórssyni með 26 landsliðsmörk.