Eiði Smára Guðjohnsen, fyrrum aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins og núverandi þjálfari Bestu deildar liðs FH telur Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfara Íslands vera á réttri leið með íslenska landsliðið.

Eiður var gestur í nýjasta hlaðvarpsþætti Steve Dagskrá þar sem farið var yfir víðan völl, meðal annars landsliðið sem leikur gegn Albaníu í kvöld.

„Mér finnst þróunin hárrétt ef við horfum blákalt á stöðuna hvar við vorum fyrir einu og hálfu, tveimur árum síðan," segir Eiður um landsliðið í nýjasta þætti Steve Dagskrá. „Það varð algjör yfirhalning á liðinu.

Hversu oft heyrum við það í íslenskum fótbolta að við þurfum bara að spila á ungum leikmönnum? Svo þegar að það gerist þá viljum við að þeir vinni strax af því að við erum svo góðu vön. Af því að við höfum farið á tvö stórmót í allri okkar fótboltasögu þá höldum við að það gerist bara á tveggja ára fresti og að það verði partý hérna öll sumur."

Kynslóðaskiptin urði meiri og komu fyrr en búist var við en þau hefðu alltaf átt sér stað á einhverjum tímapunkti. „Það er ekkert lið, hvað þá landslið með um 350 þúsund manna þjóð sem ræður við að sex til sjö byrjunarliðsmenn hverfi á braut á sama tíma.

Við horfum á stærstu félagslið í heimi í dag. Barcelona til dæmis þar sem er engin Xavi, Iniesta eða Messi. Hvað er búið að gerast og hvað þarf að gerast? Þetta þarf bara smá tíma."