Körfubolti

Þegar við mætum inn í klefa bíður Steph Curry á Facetime

Jón Axel Guðmundsson og félagar komust í úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans um helgina. Um er að ræða einn stærsta íþróttaviðburð Bandaríkjanna fyrir utan Super Bowl. Um leið og sætið var í höfn vildi Steph Curry, sem lék um árabil með skólanum, óska Jóni Axel og félögum til hamingju með sigurinn.

Jón Axel ásamt liðsfélaga sínum þegar sigurinn og um leið sæti í úrslitakeppninni var í höfn. NordicPhotos/Getty

Jón Axel Guðmundsson, bakvörðurinn frá Grindavík, verður á fimmtudaginn fyrsti alíslenski körfuboltamaðurinn sem tekur þátt í úrslitakeppni bandaríska háskólaboltans, sem kölluð er Marsgeðveikin (e. March Madness). Jón Axel og félagar í Davidson Wildcats unnu síðustu fjóra leiki ársins og tryggðu sér um leið miða á stærsta svið bandaríska körfuboltans.

Kominn á stóra sviðið

Eftir sigur í Washington í gær var haldið heim á leið með rútu, sjö og hálfs tíma ferð. Þrátt fyrir það mætti Jón Axel í tíma snemma í gær.

„Eftir leikinn var bara farið beint upp í rútu og brunað af stað, þetta voru rúmlega sjö tímar og skólinn tók við í morgun. Við fáum svo frí á æfingu í dag en hittumst aftur á morgun og förum að skipuleggja næsta leik,“ segir Jón Axel sem segir að klappað hefði verið fyrir honum í tíma í morgun. Um er að ræða einn af stærstu íþróttaviðburðum Bandaríkjanna.

„Ég held að þetta sé næststærsti íþróttaviðburður Bandaríkjanna, Super Bowl er stærra en í mars snýst allt um þessa keppni.“

Æskudraumur að rætast

Jón Axel er á öðru ári í Davidsonskólanum en einn af draumum hans var að fá að taka þátt í úrslitakeppninni á meðan á skólagöngunni stæði.

„Ég horfði oft á þessa keppni þegar ég var lítill og dreymdi um að taka þátt og maður er að upplifa æskudrauminn. Þegar ég valdi Davidson var þetta meðal annars það sem ég horfði til, að komast í úrslitakeppnina, en að ná því á öðru ári er framar mínum vonum. Svo er frábært fyrir elstu strákana í liðinu að fá að fara aftur.“

Jón Axel og félagar koma inn í keppnina með fjóra sigurleiki í röð á bakinu.

„Við vorum með þetta í okkar höndum og vorum fegnir að ráða eigin örlögum. Við erum á góðum skriði og vorum yfir allan leikinn í gær þótt þetta hefði verið fullt tæpt þarna undir lokin.“

Curry skilaði kveðju

Mótherjinn í næsta leik er gríðarlega sterkur, Kentucky Wildcats, sem skilar yfirleitt nokkrum NBAleikmönnum á ári hverju.

„Það verður skemmtileg upplifun að prófa sig gegn einum af bestu háskólunum, maður hefur séð þá fara langt ár eftir ár,“ segir Jón sem hræðist ekki Kentucky.

„Við förum í leikinn til að vinna hann, þá er allt opið. Það hefur sýnt sig ár eftir ár að það eru lið sem koma á óvart og fara langt og við ætlum okkur það.“

Jón Axel og félagar fengu strax kveðjur frá einni stærstu stjörnu NBA-deildarinnar en Steph Curry lék um árabil með skólanum.

„Við komum inn í búningsklefann og þá er þjálfarinn kominn á Facetime með Steph Curry. Hann var að fara á taugum þegar hann horfði á þetta heima en var þvílíkt sáttur með okkur,“ segir Jón Axel og bætir við: „Það sýnir hversu mikil fjölskyldustemming er í liðinu, hann er enn í góðu sambandi við þjálfarann þótt hann sé stjarna í NBA í dag.“

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Körfubolti

Stjarnan og Njarðvík unnu fyrstu leikina

Körfubolti

Vals­konur komnar í topp­sæti deildarinnar

Körfubolti

Körfu­bolta­lands­liðin á­fram í Errea næstu þrjú árin

Auglýsing

Nýjast

Króatar í basli gegn Aserbaídsjan

Næstu Ólympíu­leikar þeir síðustu hjá Si­mone Biles

Rooney heldur með Man City í titilbaráttunni

Marcus Rashford á heimleið vegna meiðsla

Gunnar niður um eitt sæti á styrk­leika­lista UFC

City og Barcelona að berjast um Saul

Auglýsing