Það var eftir Ólympíuleikana í Tókýó árið 2021, þar sem Abi Burton var liðsmaður landsliðs Bretlands í rugby, sem henni fannst eitthvað vera að. Liðið rétt missti af verðlaunasæti á mótinu og í kjölfarið tók Abi eftir breytingu í hegðun sinni.
Breytingarnar lýstu sér í því að hún varð meira niðurdregin en áður og fann fyrir orkuleysi. Henni var ávísað þunglyndislyfjum.
„Það fyrsta sem fólki dettur í hug þegar að maður lýsir þessum einkennum er að andlega heilsan sé ekki í lagi,“ segir Abi í viðtali við BBC.
Fór að sýna af sér árásargjarna hegðun
Tíminn leið en þann 15. júní á síðasta ári dró til tíðinda. Það var þá sem Abi fékk flogakast í fyrsta skipti, hún var metin og síðar útskrifuð af sjúkrahúsi, sagt að þetta hún gæti fengið annað flogakast en að þetta gæti einnig verið hennar fyrsta og eina kast.
Hegðun hennar átti hins vegar eftir að breytast mikið í kjölfarið.
„Ég fór úr því að vera feimin og lítillát manneskja, yfir í að sýna mjög árásargjarna hegðun í garð foreldra minna, systkina og jafnvel hundsins okkar.“
Hegðun Abi varð verri og verri með tímanum, það varð til þess að daglegt líf gekk ekki sinn vanagang hjá henni. Hún fékk fleiri flogaköst og var í kjölfarið ranglega metin af læknum sem töldu hana hafa farið í geðrof af völdum streitu.

Töldu hana vera í geðrofi
Ákveðið var að leggja hana inn á Fieldhead, geðsjúkrahúsið í Wakefield þar sem hún eyddi 26 dögum.
„Mamma og pabbi þurftu eiginlega bara að leyfa þeim að taka mig og vona að þeir gætu hjálpað mér. Ég get ekki ímyndað mér hversu hræðilegt þetta hefur verið fyrir þau.“
Hegðun Abi, á meðan að hún var vistuð á Fieldhead, hélt áfram að versna.
„Í grunninn var ég í meðferð vegna geðrofs en læknar útilokuðu þó ekki sjálfsofnæmissjúkdóm, hins vegar var ég ekki metin með tilliti til þess.“
Allt tók óvænta stefnu
Það var ekki fyrr en læknir úr rannsóknarteymi, er sneri að sjálfsofnæmissjúkdómum, setti sig í samband við föður Abi eftir að hafa farið yfir gögn um hana, sem hlutirnir fóru að þróast í rétta átt.
„Hann tók föður minn tali og sagði við hann: ´Ég held að dóttir þín sé að þjást af einhverju líkamlegu, ekki andlegu´.“
Abi var í kjölfarið látin gangast undir rannsóknir þar sem að það kom í ljós að hún væri að þjást af sjálfsofnæmisheilabólgu. Í öðrum orðum var ónæmiskerfið í líkama Abi að ráðast á heila hennar.
Eftir greininguna var Abi flutt yfir á annað sjúkrahús.
„Ég var áskorun fyrir föður minn hvern einasta dag vegna þess að hann var að reyna koma í veg fyrir að ég sýndi af mér árásargjarna hegðun í garð annarra.“
Vill stuðla að vitundarvakningu
Dvölin á sjúkrahúsinu gekk ekki áfallalaust fyrir sig og fól meðal annars í sér tilraun Abi til þess að strjúka.
„Ég ruddi nokkrum einstaklingum úr vegi mínum á sjúkrahúsinu þegar að ég reyndi að sleppa út úr álmunni sem ég var vistuð í, ég tæklaði einnig tvo öryggisverði.“
Fjölskylda Abi þurfti síðan að taka þá erfiðu ákvörðun að láta setja hana í dá svo hún gæti fengið plasmaskipti. Abi lá í dái í meira en þrjár vikur og fékk lungnabólgu tvisvar á þeim tíma.
Er hún vaknaði gat hún hvorki gengið né talað, þá hafði hún misst rúm nítján kíló.

Meðferðin bar þó árangur en Abi átti fyrir höndum langt endurhæfingaferli. Hún segist syrgja þann tíma sem hún missti af til þess að stunda ástríðu sína, rugby, en er þó meðvituð um það hvað hefði gerst ef hún hefði á endanum ekki verið greind með sjálfsofnæmisheilabólgu.
Hún vill nýta sína reynslu til þess að vekja athygli á sjálfsofnæmisheilabólgu og ber von til þess að engin þurfi að ganga í gegnum það sem hún þurfti að ganga í gegnum.
Abi sneri aftur til rugby æfinga í síðasta mánuði eftir margra mánaða endurhæfingu.
„Það hefði getað farið svo að ég hefði aldrei verið greind með þennan sjúkdóm. og ég hefði geta dáið ef svo hefði orðið. Það er erfitt að ímynda sér þá útkomu.“