Erik Hamren landsliðsþjálfari var hæstánægður með viðhorf og frammistöðu íslenska landsliðsins í Frakklandi í kvöld. „Ég er mjög stoltur af strákunum. Við höfðum rætt um viðhorfið sem við kæmum með inn á völlinn og það skilaði sér,“ sagði Erik við Stöð 2 Sport.

Hann sagði að liðið hefði þurft að bæta sig eftir leikina gegn Sviss og Belgíu og að það hefði gengið eftir. „Ég bjóst ekki við að standa hér eftir 2-2 jafntefli og vera svekktur með úrslitin.“

Erik sagði að liðið hefði sýnt gæði fyrir framan markið og að liðið hefði skapað sér fleiri góð færi. Hann var líka ánægður með að í stöðunni 2-2 hefði liðið reynt að skora sigurmarkið. „Viðhorfið var frábært í dag. Þetta gefur góð fyrirheit“.

Rúnar Alex Rúnarsson markvörður, sem lék fyrri hálfleikinn, fór meiddur af velli í hálfleik, að sögn Eriks. Planið hafi verið að láta hann spila allan leikinn. Þá fór Birkir Már Sævarsson haltrandi af velli. Erik sagðist þurfa að meta á morgun og hinn hversu alvarleg meiðslin væru.

Erik sagði að liðið hefði ekki komið sér á óvart. Hann vissi hvað byggi í íslenska liðinu. „Nú vitum við hvað þarf til. Vonandi getur orðið áframhald á þessu. Við vildum virkilega vinna návígin og það voru margir leiðtogar inni á vellinum.“

Hann sagðist vera bjartsýnn fyrir leikinn gegn Sviss á mánudaginn. „Ég hef trú á að við getum unnið Sviss, þó við höfum tapað 6-0 um daginn. Nú þurfum við að endurheimta kraftinn og gera svo álíka vel og í dag. Ég vonast eftir fullum velli til að styðja við bakið á liðinu.“