Arnór Sigurðsson er bæði yngsti Íslendingurinn sem spilar og skorar í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Skagamaðurinn skoraði mark CSKA Moskvu í 1-2 tapi fyrir Roma í fyrradag. Þetta var hans fyrsta mark fyrir rússneska liðið sem hann gekk til liðs við fyrir rúmum tveimur mánuðum.

Í samtali við Fréttablaðið segir Arnór að pirringurinn yfir því að tapa leiknum hafi verið sterkari en gleðin yfir því að hafa skorað.

„Það var vissulega gaman að skora og góð tilfinning að sjá boltann í netinu. Það var hins vegar mjög pirrandi að markið skyldi ekki skila stigi. Ég fékk fjölmörg skilaboð eftir leikinn, en ég átti mjög erfitt með að gleðjast þar sem ég var mjög sár yfir tapinu,“ segir Arnór.

Hann er þrettándi Íslendingurinn sem spilar í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og fyrsti Skagamaðurinn síðan Árni Gautur Arason stóð á milli stanganna hjá Rosenborg á sínum tíma. Þegar Árni Gautur lék sinn fyrsta leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar, í 3-0 sigri á Galatasaray 21. október 1998, voru tæpir átta mánuðir þar til Arnór kom í heiminn. Hann fæddist 15. maí 1999.

Arnór er aðeins þriðji Íslendingurinn sem skorar í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði sjö mörk í 45 leikjum með Chelsea og Barcelona og Alfreð gerði eitt mark í þremur leikjum með Olympiacos tímabilið 2015-16. Það var sigurmark gegn Arsenal á Emirates. Eiður er bæði lang leikja- og markahæsti Íslendingurinn í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Árni Gautur er næstur honum með 21 leik.

Uppgangur Arnórs hefur verið með ólíkindum hraður. Til marks um það lék hann sinn fyrsta leik fyrir sænska liðið Norrköping 23. ágúst 2017. Aðeins rúmu ári síðar er hann kominn í byrjunarlið CSKA Moskvu og byrjaður að spila og skora í sterkustu deild í heimi.

„Ég hef mikla trú á eigin hæfileikum og vissi það að þjálfarinn hafði miklar væntingar til mín. Það voru einhverjir sem efuðust um að ég ætti að taka þetta skref þar sem ég var búinn að koma mér vel fyrir hjá Norrköping í Svíþjóð. Ég var hins vegar aldrei í vafa um að ég gæti brotið mér fljótt leið inn í byrjunarliðið hérna,“ segir Arnór sem líður vel í Moskvu.

„Mér hefur gengið vel að aðlagast bæði borginni og hlutunum hjá nýju liði. Það hjálpar mér að það komu margir nýir leikmenn í sumar og ég er því ekki að reyna að komast inn í þéttan kjarna. Það eru fleiri í sömu sporum og ég og menn hjálpast að við að aðlögunin gangi eins smurt og mögulegt er. Borgin hefur komið mér skemmtilega á óvart og mér líður vel hérna.“

Þrátt fyrir velgengni síðustu mánaða bíður Arnór enn eftir því að vera valinn í íslenska A-landsliðið. Þeirri bið gæti lokið í dag en þá tilkynnir landsliðsþjálfarinn Erik Hamrén hópinn fyrir leikina gegn Belgíu og Katar síðar í þessum mánuði.

„Auðvitað vonast ég til þess að fá sæti í liðinu, en það er lítið annað sem ég get gert en að standa mig vel með félagsliðinu mínu. Mér finnst ég hafa spilað vel undanfarið og við sjáum til hvort það dugi til þess að koma mér inn í landsliðshópinn,“ segir Arnór að endingu.