„Eftir að hafa horft á fyrstu tvo leiki mótsins var maður kominn með fiðring í magann að bíða eftir leiknum okkar. Þetta er orðið raunverulegra og spennan eykst þegar nær dregur leiknum,“ segir miðvörðurinn Guðrún Arnardóttir, aðspurð hvort að það sé komin eftirvænting í aðdraganda fyrsta leik Íslands á EM gegn Belgum á morgun.

Guðrún byrjaði síðasta æfingaleik Íslands í aðdraganda mótsins í miðverðinum og þykir líkleg til að fá hlutverkið við hlið Glódísar Perlu Viggósdóttur.

„Auðvitað vonast maður til þess, en það er ekkert komið á hreint. Það yrði gríðarlegur heiður að vera valin, en á sama tíma tek ég því hlutverki sem Steini (innsk. Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari) gefur mér í hverjum leik og reyni að leysa það vel það vel.“

Hún segist ekki hafa velt því fyrir sér hvernig tilfinningin yrði að stíga úr leikmannagöngunum og sjá fjölskylduna í stúkunni.

„Hef í raun ekkert pælt í því fyrr en núna, en það verða fjölskylda og vinir í stúkunni. Maður fær gæsahúð og fyllist stolti að sjá þau.“