Gabonski landsliðsframherjinn Pierre-Emerick Aubameyang, sem er á mála hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Arsenal, segir ekkert hæft í þeim fréttaflutningi að hann glími við hjartavandamál.

Aubameyang sem var í agabanni hjá Arsenal áður hann hélt til Kamerún til þess að leika með Gabon á Afríkumótinu gat ekki spilað fyrir þjóð sína á mótinu þar sem hann greindist með Covid við komuna á kamerúnska grundu.

Í kjölfarið spruttu upp sögusagnir um að Aubameyang væri að glíma við hjartavandamál og væri á leið til Lundúna í læknisskoðun.

Sóknarmaðurinn segir ekkert til í því í færslu á Instagram-síðu sinni að hjartað sé í fínu lagi. Skoðun hjá læknateymi í Lundúnum hafi leitt það í ljós.

Talið er að Mikel Arteta vilji losna við Aubameyang í janúarglugganum og hafa PSG, Juventus, AC Milan, Sevilla og Marseille kannað stöðuna á framherjanum.

Þá hefur Aubameyang einnig verið orðaður við félög í Mið-Austurlöndum. Gabon mætir Búrkína Fasó í 16 liða úrslitum Afríkumótsins í dag en óvíst er hvort Aubameyang verði með í þeim leik eður ei.

Aubameyang hefur ekki spilað fyrir Arsenal síðan í tapleik liðsins gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni í upphafi desember síðastliðnum. Hann hefur skorað fjögur mörk í 15 leikjum í öllum keppnum fyrir Skytturnar á yfirstandandi leiktíð.