Hollenski miðvörðurinn Matthijs de Ligt segist ekki vera á förum í janúar þrátt fyrir að öll stærstu lið heims séu áhugasöm um nítján ára varnarmanninn.

Þrátt fyrir ungan aldur nálgast de Light hundrað leiki fyrir Ajax og hefur leikið þrettán leiki í vörn Hollands þar sem hann myndaði öflugt miðvarðapar með Virgil Van Dijk.

Hann steig fyrstu skref sín með Ajax fyrir tveimur árum síðan og lék í úrslitaleik Evrópudeildarinnar aðeins sautján ára gamall.

Þá var hann valinn efnilegasti leikmaður Evrópu (e. Golden Boy) um áramótin og talið er að það þurfi að greiða hátt upp í hundrað milljónir punda fyrir hann.

Manchester City og Barcelona hafa helst verið nefnd til sögunnar sem næsti áfangastaður hans en de Light sagðist í viðtali við Planet Futbol að hann myndi klára tímabilið með Ajax.