Velski knattspyrnumaðurinn Gareth Bale, kíkti á æfingu hjá sínu fyrrum félagi Real Madrid sem er þessa dagana statt í æfingaferð í Bandaríkjunum. Bale átti misjafna tíma hjá félaginu og hefur nú gengið til liðs við LAFC í Bandaríkjunum.

Bale varð oftar en ekki fyrir barðinu á mikilli gagnrýni af hendi fjölmiðla hliðhollum Real Madrid sem og stuðningsmönnum félagsins en hann lét það ekki koma í veg fyrir það að hann hitti fyrrum liðsfélaga sína í Bandaríkjunum.

Leikmaðurinn sló í gegn á sínum tíma með enska úrvalsdeildarliðinu Tottenham og það varð til þess að hann var keyptur til Real Madrid árið 2013 fyrir um 100 milljónir evra.

Hjá Real Madrid spilaði hann 256 leiki, skoraði 106 mörk og gaf 66 stoðsendingar. Hann varð Evrópumeistari fimm sinnum með liðinu og spænskur meistari í þrígang.