Eddie Howe tók við sem knattspyrnustjóri Newcastle United og skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í upphafi nóvembermánaðar en hann tók við liðinu af Steve Bruce sem hafði verið sagt upp af nýjum eigendum félagsins.

Það stóð til að fyrsti leikur Newcastle undir stjórn Howe yrði heimaleikur gegn Brentford þann 20. nóvember síðastliðinn en kvöldið fyrir leik var það staðfest að hann hefði greinst smitaður af Covid-19 veirunni.

Leiknum gegn Brentford lauk með 3-3 jafntefli og nú bíður Howe erfitt verkefni í sínum fyrsta leik með liðinu er það heimsækir Arsenal á Emirates Stadium. Hann hefur náð sér af veirunni og skilað inn neikvæðu PCR-prófi og hefur því fengið leyfi til þess að snúa aftur til starfa.

Jason Tindall, aðstoðarþjálfari Howe hjá Newcastle United, segir liðið hafa saknað hans. ,,Maður vill að knattspyrnustjórinn sé hérna á svæðinu hjá manni. Við höfum saknað hans í þjálfarateyminu og ég er fullviss um að leikmannahópurinn hafi líka saknað hans. Við hlökkum til að fá hann aftur á svæðið með okkur," sagði Tindall á blaðamannafundi í gær.

Þó svo að Howe hafi ekki verið á æfingasvæðinu undanfarna viku hefur hann séð hvað fer þar fram. Æfingarnar eru teknar upp og sendar honum.

Howe á verk fyrir höndum hjá Newcastle United. Liðið situr í neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar fyrir leik dagsins, hefur ekki unnni leik og er með sex stig þegar að tólf umferðir hafa verið leiknar. Leikur Arsenal og Newcastle United hefst klukkan 12:30.