Luis Enriqu­e, lands­liðs­þjálfari Spánar ætlar að gefa allan hagnaðinn, sem hann hefur unnið sér inn á beinum streymum á Twitch streymis­veitunni, til góð­gerða­sam­taka sem hjálpa lang­veikum börnum. Enriqu­e þekkir vel bar­áttu lang­veikra barna og fjöl­skyldna þeirra en níu ára dóttir hans lét lífið árið 2019.

Frá þessu greindi Enriqu­e í gær eftir að Spán­verjar féllu úr leik á HM í knatt­spyrnu eftir tap gegn Marokkó í víta­spyrnu­keppni.

Enriqu­e hefur fengið mikið lof fyrir fram­tak sitt í gegnum þátt­töku Spán­verja á HM en hann hefur haldið mjög góðu sam­bandi við stuðnings­menn liðsins og mætt reglu­lega á Twitch og opnað sig um spila­mennsku liðsins og stemninguna í leik­manna­hópnum.

Á Twitch geta ein­staklingar gerst á­skrif­endur að á­kveðnum rásum með því að greiða á­kveðið gjald. Þetta gjald rennur yfir­leitt til um­sjónar­aðila rásanna en Enriqu­e ætlar ekki að taka fjár­hæðina í sinn eigin vasa.

,,Ég hef sett mig í sam­band við Twitch og allur peningurinn sem safnast hefur saman mun renna til Enriqueta Villa­vecchia sam­takanna og verk­efnis þeirra Pabellon de la Victoria."

Um­rætt verk­efni er með það sem mark­mið að hjálpa lang­veikum börnum og fjöl­skyldum þeirra á erfiðum stundum sem geta komið upp.

Enriqu­e þekkir vel þessar erfiðu stundir en dóttir hans, Xana, lést árið 2019 að­eins níu ára gömul eftir að hafa barist við sjúk­dóm í fimm mánuði.