UFC bar­daga­kappinn Leon Edwards varð undir lok ágúst­mánaðar að­eins annar Bretinn í sögu UFC til þess að verða meistari. Edwards lagði af velli ríkjandi meistara Kamaru Us­man í titil­bar­­daga velti­vigtar­­deildarinnar. Í við­tali við BBC fer hann yfir storma­samt lífs­hlaup sitt þar sem hann fetaði rangan og erfiðan veg eftir að faðir hans, fyrrum glæpa­foringi var myrtur á nætur­klúbbi.

Edwards fluttist bú­ferlum frá Jamaíka til Eng­lands með fjöl­skyldu sinni þegar hann var ungur að árum. Faðir hans hafði farið til Eng­lands nokkrum árum áður en hann fetaði erfiða braut í lífinu og var þekktur glæpa­foringi, gekk undir viður­nefninu hers­höfðinginn.

Í við­tali við BBC segist Edwards enn þann dag í dag hvað olli því að faðir hans var að lokum myrtur á nætur­klúbbi. Hann veit bara að það tengdist peningum. Faðir hans hafði verið við­riðinn glæpa­gengi á tíma þeirra í King­ston á Jamaíka og sú iðja hans hélt á­fram á Bret­landi. Edwards segist oft hafa fundið fyrir hættunni sem fylgdi iðju föður síns.

„Ég vissi í hvaða um­hverfi faðir minn hefði komið sér í og vissi því á endanum hvað myndi mögu­lega gerast fyrir hann," segir Edwards í við­tali við BBC og lýsir síðan stundinni þegar móðir hans svaraði ör­laga­ríku sím­tali þar sem hún há­grét stuttu eftir að hafa tekið símann. „Þetta sím­tal kom mjög seint að kvöldi og þegar það gerist veit maður að eitt­hvað slæmt hefur átt sér stað. Þetta var mikið á­fall. Það var ekki eins og hann hefði látið lífið í svefni - hann var myrtur."

Edwards dróst sjálfur inn á sömu braut og faðir sinn er hann ólst upp í Birming­ham fjarri fæðingar­landi sínu Jamaíka. Hann segir þau ár vera þau myrkustu á hans ævi. Hann fann þó leið út úr þeirri iðju.

Blandaðar bar­daga­listir (MMA) náðu honum á sitt band þegar hann var 17 ára gamall. Þar fann hann sína fjöl og nú hefur hann náð hæstu hæðum hjá UFC bar­daga­sam­tökunum þar sem hann er nú meistari í velti­vigtar­deildinni.

„Ef það væri ekki fyrir MMA þá væri ég annað hvort í fangelsi eða dauður. Ég finn 100% fyrir miklum létti að hafa náð að snúa af þeirri braut sem ég var á. Móðir mín hefði geta staðið eftir með eigin­mann sem var myrtur og son sem var myrtur."