„Andrúmsloftið í hópnum er hrikalega gott. Það eru allir spenntir og einbeittir,“ sagði Ari Freyr Skúlason fyrir æfingu íslenska liðsins í Kabardinka í dag.

„Hingað til hefur allt gengið vel, góður kraftur á æfingum og mikil einbeiting. Menn eru pirraðir ef þeir tapa og það sýnir að við viljum vinna, sama hvort það sé æfing eða leikur.“

Íslensku strákarnir fengu frí frá æfingum og fjölmiðlum í gær. „Við fórum í hjólatúr niður í bæ og það var gott að komast aðeins út af hótelinu. Við erum vanir að vera alltaf með einn frídag þegar við erum í svona ferðum og tókum sameiginlega ákvörðun að taka eina hrikalega góða æfingu og hafa svo frí.“

Ísland mætir Argentínu í Moskvu eftir tvo daga. Ari segir að íslenska liðið hafi nýtt tímann síðan það kom til Rússlands til að fara yfir leik Argentínumanna.

„Við erum búnir að fara vel yfir þá en hugsum aðallega út í okkur, hvernig við getum verið betri í öllu sem við gerum,“ sagði Ari sem vildi ekki ræða mikið um veikleika Argentínu. 

„Ég ætla ekki að segja það í viðtölum. En klárlega sjáum við veikleika á þeim. Einbeitingin er samt aðallega á okkur.“

Ari hefur nokkrum sinnum spilað á kantinum í síðustu leikjum Íslands. Það er staða sem hann þekkir og er tilbúinn að leysa.

„Ef Heimir setur mig fram fer ég fram,“ sagði Ari ákveðinn. „Ég er alltaf klár þegar kallið kemur, hvort sem það er bakvörður eða kantmaður. Ég hef spilað nokkrar stöður á ferlinum og get þetta alveg. Ég er tilbúinn að hlaupa fyrir liðsfélagana, berjast og er með ágætis vinstri fót sem ætti að nýtast eitthvað.“