Pólski knattspyrnumaðurinn Chris Jastrzembski, fyrrum leikmaður Selfoss segist hafa orðið fyrir mikillri mismunun á Íslandi frá því að hann gekk til liðs við Selfoss í marsmánuði. Mismununin hafi stafað frá því að hann væri Pólverji. Reynslan hefur markað djúp spor hjá Chris sem segist aldrei aftur ætla koma hingað til lands, félagið hafi komið verr fram við hann vegna þess að hann hafi verið með pólskt vegabréf.

Chris gekk til knattspyrnuliðs Selfoss fyrir yfirstandandi tímabil. Hann lék aðeins 9 leiki fyrir félagið í Lengjudeild karla og 4 leiki í Mjólkurbikarnum. Í síðasta mánuði skipti hann síðan yfir til Prey Veng FC í Kambódíu.

,,Félagið kom verr fram við mig vegna þess að ég var með pólskt vegabréf," Chris í samtali við Gazeta. ,,Þetta er versta land sem ég hef komið til á ævi minni. Ég mun aldrei fara þangað aftur."

Chris bendir á þá staðreynd að á íslandi er að finna marga Pólverja. Hann segir upplifun sína af Íslendingum mjög slæma. ,,Ég myndi ekki mæla með því að pólskir knattspyrnumenn leiti þangað á sínum ferli. Fólk er flokkað þarna. Félagið kom verr fram við mig en aðra vegna þess að ég var með pólskt vegabréf. Frá fyrsta degi hafði ég enga virðingu hjá þessu fólki."

Eins og raunin er á Íslandi hjá mörgum knattspyrnufélögum, þá þurfa leikmenn að sinna öðrum störfum meðfram því að leika knattspyrnu. Einn daginn segist Chris hafa verið að setja saman vinnupall við íþróttasvæðið á Selfossi. Til þess þurfti hann að nýta sér stiga og hann hlaut aðstoð frá íslenskri konu á stiganum sem hélt við stigann á meðan Chris var í honum.

,,Á þeim tíma kom yfirmaður á svæðinu til okkar og sagði konunni að það væri óþarfi fyrir hana að halda við stigann. Það væri lítill vindur á svæðinu og litlar líkur á því að stiginn myndi detta."

Konan hafi yfirgefið svæðið og stuttu seinna hafi komið hreyfing úr stigann. ,,Stuttu seinna datt ég úr stiganum," segir Chris við Gazeta. Konan hafi þá snúið til baka miður sín á því að hafa yfirgefið svæðið í fyrsta lagi.

„Ég sagði henni að hafa ekki áhyggjur af þessu. Yfirmaðurinn kom stuttu seinna og sagði eitthvað við hana á íslensku sem ég skildi ekki."

Chris segir að konan hafi síðan komið til sín og greint honum frá því hvað gekk á milli hennar og yfirmannsins. „'Fari hann til fjandans. Hann er bara Pólverji. Ef hann drepst þá eru margir Pólverjar sem geta komið í staðinn," segir Chris að skilaboðin hafi verið frá yfirmanninum.