Logi Geirs­son, fyrrum at­vinnu- og lands­liðs­maður í hand­bolta er fullur til­hlökkunar fyrir komandi Heims­meistara­móti í hand­bolta hjá ís­lenska karla­lands­liðinu. Það búi gæði í liðinu sem gæti á endanum skilað heims­meistara­titli.

HM í hand­bolta fer fram í Sví­þjóð og Pól­landi. Ís­land hefur leik þann 12. Janúar næst­komandi og er í riðli með Portúgal, Ung­verja­landi og Suður-Kóreu.

,,Ég hef verið að tala þetta lands­lið upp í rúm þrjú ár núna og hef verið að bíða eftir þessari stund,“ segir Logi við Frétta­blaðið. ,,Nú er tæki­færi fyrir okkur og tæki­færið er það stórt að ef allt gengur upp þá getum við orðið heims­meistarar.“

Það þýði ekkert að vera fela sig núna.

,,Við erum með leik­menn í heimsklassa. Ég var nú bara síðast að horfa á Ómar Inga og Gísla Þor­geir spila í gær með Mag­deburg. Þeir eru ríkjandi Þýska­land­smeistarar, þeir eru meðal bestu leik­manna hand­boltans í dag og eru að spila svo vel að það er lygi­legt að horfa á.

Þetta séu burðar­ásarnir í sóknar­leiknum hjá Ís­landi.

,,Og þeir eru að spila saman dag­lega, það er rosa­legur styrkur fyrir lands­liðið.“

Þá hafi Viktor Gísli til að mynda verið að sýna ó­trú­lega góðar frammi­stöður undan­farið með Nan­tes í Frakk­landi og var valinn besti mark­vörður EM í upp­hafi árs.

,,Ef ég væri leik­maður í þessu liði þá myndi ég stefna á að verða heims­meistari. Það er raun­hæft en maður verður að þora tapa til að þora að vinna.

Fram undan er rosa­lega spennandi mót og ég veit það fyrir víst að það verður flogið ís­lenskum stuðnings­mönnum út í þúsunda tali

Ég hef rosa­lega trú á liðinu og því að nú séu hlutirnir að fara gerast.“