Logi Geirsson, fyrrum atvinnu- og landsliðsmaður í handbolta er fullur tilhlökkunar fyrir komandi Heimsmeistaramóti í handbolta hjá íslenska karlalandsliðinu. Það búi gæði í liðinu sem gæti á endanum skilað heimsmeistaratitli.
HM í handbolta fer fram í Svíþjóð og Póllandi. Ísland hefur leik þann 12. Janúar næstkomandi og er í riðli með Portúgal, Ungverjalandi og Suður-Kóreu.
,,Ég hef verið að tala þetta landslið upp í rúm þrjú ár núna og hef verið að bíða eftir þessari stund,“ segir Logi við Fréttablaðið. ,,Nú er tækifæri fyrir okkur og tækifærið er það stórt að ef allt gengur upp þá getum við orðið heimsmeistarar.“
Það þýði ekkert að vera fela sig núna.
,,Við erum með leikmenn í heimsklassa. Ég var nú bara síðast að horfa á Ómar Inga og Gísla Þorgeir spila í gær með Magdeburg. Þeir eru ríkjandi Þýskalandsmeistarar, þeir eru meðal bestu leikmanna handboltans í dag og eru að spila svo vel að það er lygilegt að horfa á.
Þetta séu burðarásarnir í sóknarleiknum hjá Íslandi.
,,Og þeir eru að spila saman daglega, það er rosalegur styrkur fyrir landsliðið.“
Þá hafi Viktor Gísli til að mynda verið að sýna ótrúlega góðar frammistöður undanfarið með Nantes í Frakklandi og var valinn besti markvörður EM í upphafi árs.
,,Ef ég væri leikmaður í þessu liði þá myndi ég stefna á að verða heimsmeistari. Það er raunhæft en maður verður að þora tapa til að þora að vinna.
Fram undan er rosalega spennandi mót og ég veit það fyrir víst að það verður flogið íslenskum stuðningsmönnum út í þúsunda tali
Ég hef rosalega trú á liðinu og því að nú séu hlutirnir að fara gerast.“