Pep Guardiola segir óvíst hvort að brasilíski markvörðurinn Ederson verði í markinu þegar Manchester City heimsækir Liverpool um helgina.

Ederson fór meiddur af velli í leik City og Atalanta í gær vegna vöðvameiðsla og kom Claudio Bravo inn í hans stað.

Guardiola var spurður út í stöðuna á Ederson eftir leikinn í ljósi þess að City væri að heimsækja topplið Liverpool á sunnudaginn og sagðist spænski knattspyrnustjórinn ekki vera tilbúinn að segja til um Ederson.

„Ég er ekki viss um hvort að hann nái leiknum á Anfield. Þetta eru vöðvameiðsli, minniháttar og hann var tekinn af velli til öryggis. Hann fór að finna fyrir þeim undir lok fyrri hálfleiks og við ákváðum að skipta honum af velli.“