Eden Hazard skoraði þrennu er Chelsea vann fimmta leik sinn í röð gegn Cardiff á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í dag þrátt fyrir að gestirnir kæmust yfir snemma leiks.

Er Chelsea ásamt Liverpool einu liðin sem eru með fullt hús stiga eftir fimm umferðir og hirti Chelsea toppsætið í dag en Watford getur fylgt liðunum með sigri á Manchester United í dag.

Sol Bamba kom gestunum í Cardiff yfir snemma leiks en Hazard svaraði með tveimur mörkum undir lok fyrri hálfleiks. Hann fullkomnaði þrennuna stuttu fyrir leikslok áður en Willian bætti við fjórða marki Chelsea.

Á sama tíma vann Arsenal 2-1 sigur á Newcastle þar sem Mesut Özil skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu. 

Granit Xhaka, fyrirliði Sviss, kom Arsenal yfir með stórbrotnu marki og bætti Özil við marki stuttu síðar. Jacob Murphy minnkaði muninn í uppbótartíma fyrir Newcastle en Skytturnar tóku stigin þrjú.

Manchester City var ekki í vandræðum á heimavelli gegn nýliðum Fulham, Leroy Sane kom heimamönnum yfir á upphafsmínútum leiksins eftir að hafa verið utan hóps í síðustu leikjum.

David Silva og Raheem Sterling áttu eftir að bæta við mörkum fyrir meistarana sem unnu afar sannfærandi sigur í dag.

Þá vann Bournemouth 4-2 sigur á Leicester á heimavelli sínum. Heimamenn komust 4-0 yfir þegar tíu mínútur voru eftir en Leicester náði að laga stöðuna með tveimur mörkum á tveggja mínútna kafla.

Að lokum vann Crystal Palace 1-0 sigur á Huddersfield og komst aftur á sigurbraut.