Kári Jónsson, bakvörður Íslandsmeistaraliðs Vals og landsliðsmaður í körfubolta og Dýrfinna Arnardóttir, fyrrum landsliðskona og Íslandsmeistari, eru mætt að styðja við bakið á íslenska liðinu og Guðrúnu, systur Dýrfinnu.

„Systir hennar Dýrfinnu er Guðrún í liðinu, þannig öll fjölskyldan er komin til Manchester að fylgja liðinu,“ segir Kári sem er kominn á sitt fyrsta stórmót í knattspyrnu.

„Við fórum á Evrópumót karla árið 2017 í körfubolta, það var meiri drykkja þar en við eigum eftir að sjá muninn,“ sagði Dýrfinna létt í lund.

Þau voru bæði bjartsýn á gengi íslenska liðsins í dag.

„Ég hef trú á þeim, stelpunum,“ sagði Dýrfinna og tók Kári í sama streng. „Við erum búin að stúdera þetta vel og erum bara nokkuð bjartsýn.“

Aðspurð hvaða einstaklingar væru í uppáhaldi á eftir Guðrúnu kom Glódís Perla Viggósdóttir fyrst upp hjá Haukafólkinu.

„Ég elska Glódísi, mér finnst hún geggjuð í öllu sem hún gerir. Svo er Áslaug Munda frábær,“ segir Dýrfinna og Kári tók undir það.

„Ég elska Glódísi líka og vona að þær myndi gott teymi í hjarta varnarinnar.“