Sean Dyche knattspyrnustjóri Burnley sem leikur í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu segir ekki sé búið að taka ákvörðun um hvort landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson muni taka þátt í leik liðsins gegn Burnley í fimmtu umferð deildarinnar á laugardaginn kemur.

„Við munum taka stöðuna með Jóhann Berg þegar nær dregur að leiknum á laugardaginn. Hann var í vandræðum með kálfann reglulega á síðustu leiktíð þannig að það er ljóst að við munum ekki taka neina áhættu. Jóhann Berg mun ekki spila nema hann sé búinn að ná sér að fullu af þeim meiðslum sem hafa verið að plaga hann," segir Dyche um stöðu mála hjá Jóhanni Berg.

Jóhann Berg fór meiddur af velli í leik Burnley gegn Wolves í þriðju umferð deildarinnar og hefur misst af leikjum liðsins gegn Sunderland í enska deildarbikarnum, Liverpool í deildinni og svo leikjum íslenska landsliðsins á móti Moldóvu og Albaníu í undankeppni EM 2020.

Burnley er í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fjögur stig eftir fjóra leiki. Jóhann Berg hefur skorað eitt mark í þeim þremur leikjum sem hann hefur spilað fyrir Burnley á keppnistímabilinu. Það mark kom í 3-0 sigri Burnley gegn Southampton í fyrstu umferð deildarinnar.