Rúrik Gíslason, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta, hefur dvalið í Malaví í Afríku síðustu tvær vikurnar. Rúrik, sem er velgjörðarsendiherra SOS-barnaþorpanna, er þar að taka upp heimildarmynd ásamt mági Jóhannesi Ásbjörnssyni.

„Gerum heiminn að betri stað saman. Ég hef síðustu 12 daga ferðast um Malaví þar sem ég er að taka upp heimildarmynd til þess að vekja athygli á aðstæðum barna í landinu sem búa við sára fátækt.

Á ferðalagi mínu hef ég hitt svo margar sterkar manneskjur, bæði fullorðna og börn sem hafa haft djúpstæð áhrif á mig. Þessi ferð hefur breytt sýn minni á lífið. Hér eftir mun ég meta hlutina á annan hátt en ég gerði áður.

Sem velgjörðarsendiherra SOS-barnaþorpanna er ég djúpt snortinn og stoltur að hafa fengið tækifæri til þess að kynnast þessum hluta heimsins," segir Rúrik um ferðina í færslu á Instagram-síðu sinni.