Íslenska liðið Dusty er komið í undanúrslit Norðurlandamótsins í League of Legends eftir að hafa sigrað danska stórveldið Ventus Esports 2-1 í gærkvöldi en liðið er atvinnumannalið og ríkjandi Norðurlandameistari. Dusty mun því keppa undanúrslitaleik á mótinu í kvöld við sænska liðið Falkn og er eflaust um að ræða stærsta rafíþróttaviðburð í sögu Íslands hingað til.

Leikurinn í kvöld er án efa stærsti rafíþróttaviðburður í sögu Íslands hingað til.

Norðurlandamótið í League of Legends er haldið tvisvar á ári en á því keppa tvö bestu lið Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og Íslands. Auk Dusty tók rafíþróttalið FH þátt á mótinu en það féll úr leik. Lið Dusty skipa þeir Mikael Degi Hallssyni, Arnari Snæland, Aroni Gabríel Guðmundssyni, Marteini Gíslasyni og Dananum Tobias Jensen. En sá síðastnefndi er eitt mesta efni Dana í leiknum og hefur vakið mikla athygli fyrir spilamennsku sína á mótinu og eru nokkur stærri lið með augastað á honum.

Ventus byrjaði viðureignina í gær mun betur og vann fyrsta leikinn mjög sannfærandi og útlitið þá orðið ansi svart fyrir Dusty. Leikur númer 2 var mjög jafn og var allt í járnum fyrstu 12 mínúturnar en að lokum seig Dusty fram úr og sigraði þann leik, staðan orðin 1-1.

Því var spilaður oddaleikur sem sem var hnífjafn til loka en með frábærri spilamennsku náði lið Dusty að fara með sigur úr býtum við mikinn fögnuð áhorfenda. Með þessum stórmerkilega árangri hefur Dusty tryggt sér væn peningaverðlaun og er aðeins einum sigri frá því að öðlast þátttökurétt á EU Masters, sem er næst stærsta rafíþróttamót Evrópu.

Ef Dusty sigrar í kvöld öðlast liðið þátttökurétt á EU Master-mótinu.

Leikur Dusty við Falkn fer fram klukkan 19 í kvöld en Falkn vann Dusty nokkuð örugglega í fyrsta leik deildarkeppninnar fyrr í sumar. Sigurvegarinn í viðureigninni leikur svo til úrslita gegn annaðhvort danska liðinu Copenhagen Flames eða sænska liðinu Team Final Tribe.

Búið er að skipuleggja sérstaka áhorfsveislu í Háskólanum í Reykjavík þar sem allir geta mætt og horft á leikinn í góðum félagsskap. Nánari upplýsingar um þann viðburð má finna á Facebook-síðu Dusty.

Hægt er að fylgjast með leiknum í kvöld í beinni útsendingu hér.