Dustin Johnson vann öruggan sigur og bætti um leið vallarmetið á Augusta-vellinum á þriðja og síðasta risamóti ársins í golfi sem lauk í kvöld.

Þetta var í fyrsta sinn sem Dustin vinnur Masters-mótið og um leið annar risatitillinn á ferli kylfingsins sem vermir toppsæti heimslistans.

Það virtist ekkert geta stöðvað Dustin sem var með gott forskot fyrir lokadaginn. Hann var ekkert að slaka á klónni og kom í hús á 68 höggum í dag sem var jafnbesti hringur dagsins.

Með því náði Dustin að leika alla fjóra hringina á Masters undir pari og er nú búinn að leika þrettán hringi í röð undir pari á Augusta.