Kevin Durant blés á sögusagnirnar um að hann væri búinn að ákveða hvar hann myndi leika næsta haust í viðtali.

Eitt ár er eftir af samningi Durant við Golden State sem er með ákvæði um að hann geti rift samningnum ári fyrr.

Talið er nánast öruggt að hann yfirgefi Golden State í sumar eftir þrjú farsæl ár og hefur hann sagt í viðtölum að hann ætli sér ekki lengur að veita neinn afslátt.

Durant hefur verið tilbúinn að gefa eftir í launakröfum til að halda saman kjarna liðsins sem stefnir hraðbyri að þriðja meistaratitlinum í röð.

New York Knicks og Los Angeles Lakers hafa helst verið nefnd til sögunnar en ljóst er að öll lið deildarinnar vilja fá þennan besta körfuboltamann deildarinnar í sínar herbúðir.

„Ég má ekkert gera, tímabilið er enn í gangi og ég einbeiti mér bara að því að spila,“ sagði Durant í samtali við Marc Spears hjá Undefeated og staðfesti að hann væri ekki búinn að ákveða sig.