Peng birtist síðan óvænt á tennismóti sem haldið var í Peking um síðastliðna helgi. Á myndskeiðum sem fóru síðan í dreifingu á samfélagsmiðlum mátti sjá Peng á tennismótinu og á öðru myndbandi mátti sjá hana sitja að snæðingi með vinum sínum.

Á miðvikudaginn í síðustu viku birti ríkisfjölmiðillinn í Kína tölvupóst sem var sagður skrifaður af Peng. Í tölvupóstinum var því lýst yfir að ásakanirnar sem hefðu verið settar fram á hendur fyrrum varaforseta Kína hefðu verið rangar. Enn fremur var því haldið fram að Peng væri ekki týnd og að það væri í lagi með hana, hún væri heima hjá sér að hvílast.

Mikill þrýstingur hafði myndast á stjórnvöld í Kína á þann veg að þau myndu veita vissu fyrir því að tenniskonan Peng Shaui væri heil á húfi og það er mat margra að ekki sé hægt að taka því að Peng sé heil á húfi og frjáls ferða sinna þrátt fyrir að hún hefði birst fyrir augum almennings um helgina.

Zhao Lijian, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, var spurður út í mál Peng Shuai í morgun. Hann var afdráttarlaus í svörum sínum til blaðamanna. ,,Ég tel að þið hafið öll séð að hún sótti viðburði um helgina og átti myndsímtal við forseta Alþjóða ólympíunefndarinnar. Ég tel að fólk ætti nú að hætta því að blása þetta mál upp, hvað þá að umturna þessu í eitthvað pólitískt mál."

Peng var á sínum tíma ein fremsta tenniskona heims. Hún er 36 ára og birti í upphafi þessarar atburðarrásar 1600 orða færslu á kínverskum samfélagsmiðli þar sem hún sakaði fyrrverandi varaforseta Kína um kynferðislegt ofbeldi.