Það hefur lengi verið draumur íslenskra knattspyrnuliða að komast í riðlakeppni í annað hvort Meistaradeild Evrópu eða Evrópudeildarinnar í knattspyrnu karla.

Dudelange frá Lúxemborg hefur veitt íslenskum liðum von og trú á því að það muni eitt árið takast með frammistöðu sinni í Evrópudeildinni síðustu tvö keppnistímabilin.

Liðið varð fyrsta liðið frá Lúxemborg til þess að komast í riðlakeppni Evrópudeildarinnar síðasta vetur. Dudelange var þá í riðli með Real Betis, Olympiacos og AC Milan.

Í frumraun sinni á þessum stað fékk liðið eitt stig með því að gera markalaust jafntefli við Real Betis sem stóð uppi sem sigurvegari í riðlinum.

Árangurinn í fyrra var ekki einnar leiktíðar undur þar sem Dudelange endurtók leikinn í haust með því að komast á nýjan leik í riðlakeppnina. Dudelange lagði makedónska liðið Shkëndija, eistneska liðið Nõmme Kalju og að lokum armenska liðið Ararat-Armenia á leið sinni í riðlakeppnina.

Dudelange er svo með APOEL, Sevilla og Qarabag í riðli í riðlakeppninni að þessu sinni. Riðlakeppnin fer vel af stað hjá Dudelange þar sem liðið vann sinn fyrsta sigur á þessu stigi keppninnar og varð enn fremur fyrsta liðið frá Lúxemborg til þess að gera slíkt þegar lið bar sigurorð af APOEL í Kýpur í gærkvöldi.

Það búa rúmlega 500.000 íbúar í Lúxemborg og efsta deildin í knattspyrnu karla og fyrir þetta tímabil var árangur liða frá Lúxemborg og Íslandi mjög svipaður. Lúxemborg skaust úr 43. sæti í það 35. með árangri sínum í Evrópukeppnunum í ár á meðan sneypuför íslensku liðanna í Evrópukeppni þetta árið varð til þess að Ísland féll úr 39. sæti í 46. sæti.

Þessi frammistaða Dudelange ætti að blása íslenskum liðum baráttuanda í brjóst fyrir þátttöku þeirra í Evrópukeppnum á næsta tímabili.