Það gæti farið svo að Ísland verði með fulltrúa í skylmingum á Ólympíuleikunum í fyrsta sinn á næsta ári. ÍSÍ birti fyrir helgi lista yfir Ólympíuhópinn, eða yfir þá einstaklinga sem eru að reyna að komast inn á leikana, og mun ÍSÍ styðja við bakið á þeim í aðdraganda leikanna. Þar er að finna tvo unga og efnilega keppendur í skylmingum, Andra Nikolaysson Mateev, sem keppir fyrir hönd Skylmingafélags Reykjavíkur, og Daníel Þór Líndal Sigurðsson, sem er búsettur í Bretlandi.

Hinn tvítugi Andri segir að líkt og í öðrum íþróttum hafi heimsfaraldurinn áhrif á framtíðaráformin.

„Þessi listi ÍSÍ færir mann að sjálfsögðu aðeins nær draumnum um að keppa á Ólympíuleikunum, þó að það sé mjög erfitt að komast inn vegna áhrifa COVID-19. Það eru engin mót þessa dagana og því erfitt að fá stigin sem þarf til að færast upp heimslistann, sem er notaður við Ólympíuviðmiðin. Með þessari aðstoð ÍSÍ á ég auðveldara með að fara á mót erlendis þegar það léttir til í þessum heimsfaraldri.“

Andri segist hafa unnið í andlegu hliðinni undanfarna mánuði.

„Ég hef verið að reyna að bæta líkamlegt form í þessum heimsfaraldri, en líka reynt að vinna í andlegu hliðinni síðan allt fór í lás.“

Hann segir drauminn vera að verða annar meðlimur fjölskyldunnar til að keppa í skylmingum á Ólympíuleikunum. Nikolay Ivanov Mateev, faðir hans, keppti fyrir hönd Búlgaríu árið 1988 í Seúl.

„Draumurinn er að sjálfsögðu að feta í fótspor föður míns sem keppti fyrir hönd Búlgaríu á Ólympíuleikunum í Seúl 1988. Það yrði magnað að verða annar einstaklingurinn í fjölskyldunni til að ná að keppa á ÓL. Hann er mér mikil hvatning og hefur verið duglegur að styðja við bakið á mér. Það drífur mann áfram ég ætla mér að ná langt.“

Búið er að fresta öllum mótum það sem eftir lifir þessa árs, en Andri segist vonast til að komast á sterkt úrtökumót næsta vor.

„Það er búið að fresta öllu það sem eftir er þessa árs en við eigum eftir að sjá hvert framhaldið er. Staðan verður endurmetin í byrjun næsta árs. Keppnisformið er ekki alveg upp á það besta þessa dagana en ég er mjög hungraður í að byrja að keppa aftur,“ segir Andri um næstu mánuði hjá sér.

„Ég kemst vonandi á úrtökumótið í Madríd fyrir Ólympíuleikanna, það yrði stærsta mót ferilsins til þessa. Það voru áður fjögur pláss á ÓL í boði á þessu móti en það er bara eitt í ár og margir af bestu skylmingaköppum heims keppa þar. Það er því langsótt að komast inn til Tókýó en ég er ungur og mun læra af þessu sama hvernig þetta endar. Markmiðið er allavegana að komast á Ólympíuleikana einn daginn.“