„Ég spilaði fótbolta þegar ég var ungur og 16 ára gamall fór ég svo að dæma leiki. Ég hafði alltaf haft mikinn áhuga á dómgæslu og þegar við félagarnir vorum að leika okkur í fótbolta tók ég oft að mér að dæma leikina.

Það var draumurinn að dæma í efstu deild í Írak og á alþjóðlegum vettvangi. Sökum þess að ég er Kúrdi þá var mér haldið frá alþjóðlegum verkefnum, en ég dæmdi hins vegar í efstu deild í Írak áður en ég fluttist þaðan,“ segir Ahmad um bakgrunn sinn.

„Knattspyrnusambandið í Írak er staðsett í Bagdad og því er stjórnað af sjíum. Sú staðreynd að ég er Kúrdi varð til þess að ég fékk ekki stærstu verkefnin í heimalandinu og ekki möguleikann á að fá alþjóðleg verkefni sem Írökum standa til boða.

Félagar mínir í íröksku dómarastéttinni sem eru Arabar búsettir í Bagdad, fengu hins vegar sjénsinn. Það var mjög sorglegt að geta ekki þróað dómaraferil minn meira í heimalandinu mínu vegna þjóðfélagsstöðu minnar þar,“ segir hann enn fremur um reynslu sína.

Fékk ekki að dæma leiki hjá fullorðnum í Þýskalandi

„Ég hef aftur á móti dæmt leiki í efstu deild í Írak og leiki í Katar. Fyrir fimm árum síðan flutti ég með fjölskyldu minni og móður minni og föður í flóttamannabúðir í Þýskalandi. Þar langaði mig að fá tækifæri til þess að dæma hjá fullorðnum í deildarkeppni. Þar sem ég kann ekki þýsku fékk ég einungis að dæma hjá börnum, þrátt fyrir að ég væri með alþjóðleg dómarapróf frá FIFA,“ segir Ahmad um dvöl sína í Þýskalandi.

„Þegar við fengum tækifæri til að flytja til Íslands ákváðum við að grípa það og freista þess að leita að betra lífi. Ég vissi nokkuð mikið um Ísland og var meðvitaður um fólksfjöldann og hvar á hnettinum landið er. Ég þekkti Eið Smára [Guðjohnsen] og Gylfa Þór [Sigurðsson]. Það er gaman að sjá að Eiður Smári sé farinn að þjálfa á Íslandi. Ég held hins vegar með Real Madrid, af því að Zinedine Zidane er uppáhaldsleikmaðurinn minn, þannig að ég studdi Eið Smára ekki þegar hann lék með Barcelona.

Ég hélt hins vegar áður en ég kom hingað að hér væri töluð enska. Áður en ég kom hingað var ég þokkalegur í ensku, en ég hef lært hana betur á þeim árum sem ég hef verið hér. Þá er ég farinn að skilja íslensku að einhverju leyti og tala smávegis. Ég skil til dæmis hvað leikmenn eru að segja í kringum mig þegar ég er að dæma, en tjái mig á ensku við þá til baka.

Það er ekki hægt að bera saman hvernig það er að dæma í Írak og hér á landi. Bæði er umhverfið allt annað meðan á leiknum stendur og í kringum leikina. Það er mikill hiti í leikjunum í Írak og allir brjálaðir, alveg sama hvernig þú dæmir. Á Íslandi eru leikmenn og þjálfarar vingjarnlegir og gera athugasemdir við ákvarðanir þínar á mun hófstilltari hátt. Það eru svo dæmi þess að dómarar hafi verið líflátnir ef þeir hafa ekki dæmt ákveðnum liðum í hag,“ segir dómarinn.

Kann Gunnari Jarli og Magnúsi miklar þakkir fyrir hjálpina

„Fljótlega eftir að ég kom hingað kynntist ég Gunnari Jarli [Jónssyni] sem þekkir til í dómarabransanum. Gunnar Jarl kom mér í samband við KSÍ og þar var mér mjög vel tekið. Magnús [Jónsson], dómarastjóri KSÍ, hefur veitt mér verkefni. Það var svolítið leitt að þurfa að byrja frá botni í ljósi þeirrar reynslu sem ég hef, en ég er fyrst og fremst þakklátur fyrir þau tækifæri sem ég hef fengið. Ég kann mjög vel við það hversu mikið Gunnar Jarl og Magnús hafa aðstoðað mig. Nú er ég að dæma í 4. og 3. deild karla og í 2. flokki karla. Vonandi næ ég að sanna mig og færa mig upp um deildir sem fyrst. Ég ætla að taka þrekprófið fyrir næsta tímabil. Draumurinn er svo að dæma í efstu deild,“ segir þessi metnaðarfulli dómari.

„Okkur líður mjög vel á Íslandi en við konan mín eigum tvær dætur og einn son. Elsta dóttirin er byrjuð í skóla og þau eru öll farin að tala góða íslensku. Börn eru ótrúlega snögg að læra ný tungumál. Ég er að vinna á Bæjarins bestu og við höfum komið okkur fyrir í Garðabænum. Planið er að færa okkur til Reykjavíkur. Við sjáum fyrir okkur að búa hér áfram og værum vel til í að festa rætur hér. Ísland hefur tekið okkur opnum örmum,“ segir Ahmad.