UEFA staðfesti í kvöld að U21 ára liði Íslands yrði dæmdur sigur gegn Armenum sem þýðir að Ísland er komið í lokakeppni Evrópumótsins næsta sumar.

Evrópska knattspyrnusambandið ákvað að aflýsa öllum leikjum Armena í haust vegna stríðsástands í landinu.

Ísland var einu stigi á eftir Írum eftir lokaumferðina í vikunni en átti leikinn inni gegn Armenum. Með sigrinum nær Ísland að skjótast upp fyrir Íra.

Þetta er í annað sinn sem Ísland sendir lið til leiks í lokakeppni EM U21. Tíu ár verða liðin frá því að gullkynslóð karlalandsliðsins lék í lokakeppninni í Danmörku.

Úr því liði kom hryggjarsúla landsliðsins til næstu tíu ára sem hefur komið karlalandsliðinu á sín fyrstu tvö stórmót.

Úrslitakeppnin verður haldin í tveimur hlutum í tveimur löndum - í Ungverjalandi og Slóveníu.

Riðlakeppnin fer fram dagana 24.-31. mars 2021 og 8-liða úrslit, undanúrslit og úrslitaleikurinn fara svo fram 31. maí - 6. júní.  Dregið verður í riðla fyrir úrslitakeppnina 10. desember næstkomandi.