Fyrir rúmum 12 árum tók Elísabet Gunnarsdóttir við stjórnartaumunum hjá kvennaliði sænska félagsins Kristianstad í knattspyrnu. Eins og Elísabetu er von og vísa hafði hún háleit markmið fyrir liðið og um síðustu helgi náðist eitt af þeim markmiðum sem hún setti fyrir liðið þegar hún tók við. Kristianstad tryggði sér þá sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta keppnistímabili.

Sif Atladóttir gekk til liðs við Kristianstad vorið 2011 en hún hefur því gengið í gegnum þá rússibanareið sem stjórnartíð Elísabetar hefur verið. Sif fylgdi með í kaupunum á eiginmanni hennar, Birni Sigurbjörnssyni, sem verið hefur aðstoðarþjálfari Elísabetar og stýrir nú samhliða því starfi akaedemíu félagsins.

Á þeim rúma áratug sem Elísabet hefur stýrt liðinu hafa hún og leikmenn hennar upplifað uppgang í bland við fallbaráttu, töp í bikarúrslitaleik í tvígang og að þurfa að bjarga félaginu frá gjaldþroti.

Margt hefur gengið á hjá kvennaliði Kristianstad í knattspyrnu síðasta áratuginn.
Mynd/Kristianstad

Ein af uppskerum erfiðisins var svo í höfn um helgina þegar Meistaradeildarfótbolti í Kristianstad varð að raunveruleika. Sif segir ákveðið spennufall ríkja hjá sér en hún er í barneignaleyfi eins og sakir standa og fylgist því með úr fjarska. Þrátt fyrir að þetta markmið sé í höfn sé liðið með fleiri drauma sem vonandi muni rætast einnig. Kristianstad mun hafna í öðru eða þriðja sæti deildarinnar á leiktíðinni sem lýkur um næstu helgi en besti árangur í sögu liðsins er fjórða sætið árið 2018.

„Þegar Elísabet var að ræða við okkur Bjössa um að koma til Kristianstad man ég að við stóðum á heimavelli liðsins og hún sagði að markmiðið væri að spila leik í Meistaradeildinni á þessum velli á næstu árum. Félagið er stofnað árið 1998 og hafði á þeim tíma ekki áður gert sig gildandi í toppbaráttu. Kristianstad var ekki þekkt í knattspyrnuheiminum þá og draumur um að leika í Meistaradeildinni var fjarlægur.

Það voru hugmyndir um að rífa völlinn og byggja heimavöll annars staðar í bænum en Elísabet stoppaði það þar sem henni fannst þetta kjörin staður fyrir Meistaradeildarleik sem væri í kortunum,“ segir Sif í samtali við Fréttablaðið um upphaf tíma hennar hjá Kristianstad. Kristianstad lék áður á Vilans en leikur nú á Kristianstads Fotbollsarena sem tekinn var í notkun fyrir rúmum tveimur árum síðan.

Elísabet Gunnarsdóttir kynntist Birni Sigurbjörnssyni þegar hún þjálfaði á móti honum á Íslandi. Þau hafa myndað sterkt þjálfarateymi hjá Kristianstad.
Mynd/Kristianstad

„Elísabet hafði kynnst Bjössa þegar hún fékk hann til þess að þjálfa yngri flokka hjá Val. Hún hafði skýrar hugmyndir um hlutverk mitt og Bjössa í uppbyggingu félagsins, við hrifumst með og sjáum svo sannarlega ekki eftir því núna. Það hefur vissulega ýmislegt gengið á og sumir tímar verið erfiðari en aðrir. Allt hefur þetta hins vegar farið í reynslubankann og nú þegar Meistaradeildarsætið er tryggt er það extra ánægjulegt þar sem við höfum lagt mikla vinnu á okkur til þess að ná í það,“ segir landsliðkonan um þróun mála hjá félaginu.

„Við vorum hársbreidd frá því að verða gjaldþrota árið 2016 og sama ár björguðum við okkur frá falli í lokaumferð deildarinnar. Þarna áttaði ég mig á því hvað andleg heilsa utan vallar hefur mikil áhrif á spilamennskuna innan vallar. Tímabilið var stöngin út þar sem ekkert gekk upp en sem betur fer náðum við að bjarga okkur fyrir horn bæði hvað fjárhaginn varðar og í fótboltanum. Á þessum tíma held ég að Elísabet og við leikmenn liðsins höfum lært að við verðum að vera meira inni í öllum málefnum félagsins ef vel á að ganga,“ segir hún um erfiðan tíma hjá félaginu.

Kapp hefur verið lagt á að mynda góð tengsl við bæjarbúa og samtarfsaðila Kristianstad.
Mynd/Kristianstad

„Við einsettum okkur að bæta samskipti við samstarfsaðilana og breyta ásýnd félagsins hjá bæjarbúum. Við settum af stað verkefni sem gekk út á að fá krakka til þess að fara út að leika. Um helgar mættu leikmenn og þjálfarar hjá liðinu í opin almenningsrými og stýrðum leikjum fyrir krakkana. Svo tókum við að okkur verkefni fyrir samstarfsaðila félagsins og vorum sýnilegri í bænum.

Á síðasta ári settum við svo á laggirnar verkefni fyrir eldri borgara þar sem við bjóðum upp á að stýra hreyfingu fyrir þann hóp. Í kórónaveirufaraldrinum höfum við mætt fyrir utan heimili þeirra og stýrt leikfimi sem hefur verið mjög gefandi, sérstaklega fyrir mig þar sem ég skrifaði ritgerð um hreyfingu þessa aldurshóps,“ segir þessi frábæri varnarmaður.

„Í fyrra vorum við í baráttu um titilinn allt þar til fjórar umferðir voru eftir af deildinni og fórum í bikarúrslit þar sem við töpuðum. Leikurinn sem gerði út um titilvonir okkar var mjög sérstakur en það var fyrsti leikurinn sem ég spilaði eftir að pabbi dó. Ég fékk dæmda á mig vítapsyrnu fyrir að tæklingu sem mér fannst ekki vera brot og var þess utan fyrir utan vítateig.

Það voru vonbrigði að ná ekki að fara alla leið í toppbaráttunni eða vinna bikarinn en við settumst niður og bjuggum til plan fyrir árið 2020 og fórum bara að vinna í því að búa okkur undir næstu leiktíð,“ segir Sif um síðasta haust.

Björn Sigurbjörnsson hefur gert góða hluti hjá Kristianstad og akademían sem hann stýrir skilar fjölmörgum góðum leikmönnum upp í aðallið félagsins.

„Eitt af markmiðunum sem var á listanum fyrir árið 2020 var að komast í Meistaradeildina og annað var að skila fleiri leikmönnum úr akademíu félagsins sem Bjössi stýrir. Eins og staðan er núna eru um það bil 60 prósent af leikmannahópi liðsins uppaldir leikmenn úr akademíunni.

Við finnum fyrir miklum meðbyr í bænum með starfinu hjá okkur og bæjarbúar eru mjög stoltir af árangrinum. Ég var stoppuð daginn eftir leikinn um helgina og óskað til hamningju með Meistaradeildarsætið og samherjar mínir eru að lenda í því sama. Við erum hér kjarni í hópnum sem hefur gengið í gegnum súrt og sætt hjá félaginu og það er sterk tenging milli okkar. Það er góð tilfinning að hafa náð bæjarbúum á okkar band og vera komnar á þennan stað með liðinu,“ segir þessi mikla keppniskona.

Sif Atladóttur með dóttur sinni á Vilans, fyrrverandi heimavelli Kristianstad.
Mynd/twitter-síða Sifjar Atladóttur
Elísabet Gunnarsdóttir gefur leikmanni sínum skipanir af hliðarlínunni.
Mynd/Isabella Sjöstedt
Leikmenn Kristianstad fagnar marki fyrr á keppnistímabilinu sem senn fer að ljúka.
Mynd/Isabella Sjöstedt
Kristianstad er að ná sínum besta árangri í sögu félagsins.
Mynd/Isabella Sjöstedt