Leikmenn íslenska kvennalandsliðsins í handbolta þegar liðið sótti Spánverja heim til Malaga í fyrri leiknum í umspili um laust sæti á HM 2019 sem leikið verður í Japan í desember.

Það varð ljóst strax frá upphafi að róðurinn yrði þungur fyrir íslenska liðið en allt í senn reyndist varnarmúr spænska liðsins, Silvia Navarro markvörður liðsins og hraður sóknarleikur leikmönnum íslenska liðsins óþægur ljár í þúfu.

Spánn var 14 mörkum yfir þegar blásið var til hálfleiks en þá var staðan 21-7 Spánerjum í vil. Það var allt annað íslenskt lið sem mætti til leiks í seinni hálfleik en þar átti Steinunn Björnsdóttir meðal annarra góðan leik á báðum endum vallarins. Þá batnaði varnarleikur Íslands til muna og Elín Jóna Þorsteinsdóttir hrökk í gang.

Þegar upp var staðið urðu lokatöur 35-26 fyrir Spáni. Þórey Rósa Stefánsdóttir var markahæst hjá íslenska liðinu en samherji hennar hjá Fram kom næst með fjögur mörk.

Eva Björk Davíðsdóttir, Sigríður Hauksdóttir og Steinunn Björnsdóttir skoruðu svo þrjú mörk hver, Thea Imani Sturludóttir og Helena Rut Örvarsdóttir voru þar á eftir með tvo og Arna Sif Pálsdóttir, Andrea Jacobsen og Rut Jónsdóttir bættu einu marki við í sarpinn.

Liðin mætast í seinni leiknum í Laugardalshöllinni á fimmtudaginn kemur en telja verður ansi hæpið að Íslandi takist að snúa taflin sér í vil þrátt fyrir að allt sé hægt í íþróttum.