Ísland mátti varla við því að tapa stigum í dag enda ljóst að baráttan verður hörð um annað sætið í riðlinum á eftir Þjóðverjum.

Þrátt fyrir að Ísland væri meira með boltann kom lítið út úr sóknarlotum Íslands sem saknaði Gylfa Þórs Sigurðssonar sárlega í leiknum.

Strákarnir okkar töpuðu fyrsta leiknum 0-3 gegn Þýskalandi á dögunum en mæta Liechtenstein í lokaleik þessa landsleikjaglugga á þriðjudaginn.

Ljóst er að Ísland má ekki við því að tapa mikið fleiri stigum ef Strákarnir okkar ætla sér í lokakeppni HM annað mótið í röð.

Þjálfarateymið gerði breytingar á byrjunarliðinu sem reyndist vel í upphafi leiks. Íslenska liðið átti fínar rispur í byrjun leiksins án þess að skapa mörg færi.

Á sama tíma kom lítið úr úr sóknarlotum Armeníu sem enduðu flestar á langskotum sem Hannes Þór Halldórsson var með örugglega.

Ari Freyr Skúlason komst næst því að koma Íslandi yfir en skot hans fór af markmanni hárfínt framhjá.

Þegar líða tók á hálfleikinn náðu Armenar betri tökum á leiknum og var jafnræði með liðunum lengst af í fyrri hálfleik.

fréttablaðið/epa

Staðan var markalaus í hálfleik en í upphafi seinni hálfleiks var það Tigran Barseghyan sem braut ísinn fyrir heimamenn.

Barseghyan fékk þá sendingu út á kantinn, fór framhjá Ara og skoraði með snyrtilegu skoti frá vítateigshorninu.

Þjálfarateymið brást við með því að skipta Kolbeini Sigþórssyni inn fyrir Arnór Sigurðsson og við tók fínn kafli íslenska liðsins.

Jón Daði Böðvarsson fékk tvö fín færi án þess að koma boltanum framhjá David Yurchenko í marki Armeníu.

Um miðbik seinni hálfleiks bætti Armenía við forskotið þegar Khoren Bayramyan skoraði með góðu skoti. Hann fann pláss á bak við Birki Má Sævarsson og lagði boltann í fjærhornið.