Ungverjaland hafði betur með tveimur mörkum gegn einu gegn Íslandi þegar liðin mættust í Búdapest í hreinum úrslitaleik um laust sæti í lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu karla sem fram fer næsta sumar í kvöld. Íslenska liðið fer þar af leiðandi ekki á þriðja stórmótið í röð.

Guðlaugur Victor Pálsson fékk fyrsta færi íslenska liðsins á fjórðu mínútu leiksins en Péter Gulácsi, markvörður Ungverja, varði skalla hans eftir hornspyrnu Gylfa Þórs Sigurðssonar.

Gylfi Þór kom svo Íslandi yfir eftir rúmlega tíu mínútna leik en hann skoraði þá með skoti beint úr aukaspyrnu sem Jóhann Berg Guðmundsson nældi í rétt utan vítateigs ungverska liðsins. Skot Gylfa Þórs fór beint á Gulácsi sem missti boltann úr höndunum og inn fyrir línuna.

Heimamenn sóttu í sig veðrið eftir markið og um miðbik fyrri hálfleiks sýndi Kári Árnason frábæra varnartakta þegar hann komst fyrir skalla Roland Sallai. Skömmu síðar átti Alfreð Finnbogason skalla eftir fyrirgjöf frá Jóhanni Berg sem Gulácsi varði auðveldlega.

Eftir tæplega hálftíma leik var Birkir Bjarnason nálægt því að ná að tvöfalda forystu íslenska liðsins. Alfreð sendi þá boltann fyrir á Birki sem var fyrir framan autt markið en Endre Botka náði að bægja hættunni frá á síðustu stundu.

Undir lok fyrri hálfleiks slapp Jóhann Berg innfyrir vörn Ungverja eftir stungusendingu frá Gylfa Þór. Jóhann Berg náði ekki að sveigja boltann framhjá Gulácsi sem greip boltann. Síðasta færi Íslands í fyrri hálfleik var svo skottilraun Gylfa Þórs fyrir utan teig sem Gulácsi átti ekki í miklum erfiðleikum með að verja.

Skammt stórra högga á milli undir lok leiksins

Í upphafi seinni hálfleiks gerði Ragnar Sigurðsson afar vel þegar hann komst fyrir skot Attila Szalai úr fínu færi með góðri tæklingu. Heimamenn voru meira með boltann og sókn þeirra þyngdist eftir því sem leið á seinni hálfleikinn.

Jón Daði Böðvarsson sem kom inná sem varamaður fyrir Jóhann Berg átti fyrsta marktilraun Íslands í seinni hálfleik þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum.

Skömmu síðar var Albert Guðmundsson sem leysti Alfreð af hólmi í leiknum hársbreidd frá því að innsigla sigur Íslands. Jón Daði sendi þá boltann fyrir á Albert sem hitti boltann ekki nógu vel og skaut framhjá.

Loic Nego jafnaði metin fyrir Ungverja á 88. mínútu leiksins og það var svo Dominik Szoboszlai sem skoraði sigurmark Ungverja í uppbótartíma leiksins. Jón Daði hafði fengið upplagt tækifæri til þess að gera út um leikinn hinu megin í sókninni áður en Szoboszlai skaut ungverska liðinu á Evrópumótið.

Gylfi Þór fékk svo síðasta færi Íslands í leiknum en allt kom fyrir ekki og draumurinn um að fara á þriðja stórmótið úr sögunni.

Lið Íslands í leiknum var þannig skipað: Mark: Hannes Þór Halldórsson. Vörn: Hörður Björgvin Magnússon, Kári Árnason, Ragnar Sigurðsson, Guðlaugur Victor Pálsson. Miðja: Birkir Bjarnason, Aron Einar Gunnarsson (fyrirliði) (Ari Freyr Skúlason ´83), Rúnar Már Sigurjónsson (Sverrir Ingi Ingason ´87), Jóhann Berg Guðmundsson (Jón Daði Böðvarsson ´74). Sókn: Gylfi Þór Sigurðsson, Alfreð Finnbogason (Albert Guðmundsson ´74).

Erik Hamrén, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, var niðurlútur þegar flautað var til leiksloka.
Fréttablaðið/Getty