Ís­lenska karla­lands­liðið í körfu­bolta er í bullandi séns á að tryggja sér sæti á HM þrátt fyrir tap gegn Spán­verjum á heima­velli í gær­kvöldi. Tap Úkraínu gegn Ítalíu sér til þess að úr­slit kvöldsins skipta engu máli í stóra sam­henginu. Úr­slitin ráðast á sunnu­daginn næst­komandi.

Fram undan er ferða­lag ís­lenska lands­liðsins til Tí­blisi í Georgíu þar sem fram fer loka­leikur liðsins í undan­keppni HM gegn heima­mönnum í Georgíu.

Fyrir leikinn situr Ís­land í 4. sæti L-riðils með 13 stig, stigi á eftir Georgíu sem situr í 3. sæti sem er jafn­framt síðasta sætið sem veitir þátt­töku­rétt á HM.

Staðan í riðlinum, auk fyrri viður­eignar Ís­lands og Georgíu sem endaði með þriggja stiga sigri Georgíu, gerir það að verkum að Ís­land verður að vinna með fjórum stiga mun eða meira á sunnu­daginn til þess að tryggja sér HM sætið.

Í undan­keppni HM í körfu­bolta eru reglurnar þannig að eitt stig fæst fyrir tap og tvö fyrir sigur.

Sigur einn og sér á móti Georgíu með undir fjögurra stiga mun myndi ekki duga ís­lenska lands­liðinu þar sem liðin yrðu þá jöfn að stigum í þriðja sæti en Georgía með betri árangur í inn­byrðis viður­eignum.

Ís­land þarf sigur með fjögurra stiga mun eða meira til þess að ná yfir­höndinni í inn­byrðis viður­eignum.

Leikur Ís­lands og Georgíu fer fram á sunnu­daginn næst­komandi og hefst klukkan 16:00.