Heimildarmenn Fréttablaðsins segja að líkur séu á því að Heimir taki við Stjörnunni en brugðið getur til beggja vona. Heimir vildi ekki tjá sig um þetta við Vísir.is fyrr í dag. Vitað er að Heimir hefur horft til þess að starfa áfram erlendis, berist ekkert spennandi tilboð á næstu dögum gæti hann komið heim til Íslands og tekið við Stjörnunni.

Þorvaldur Örlygsson lét af störfum sem þjálfari liðsins á dögunum en félagið hafði vonast eftir því að ráða Ólaf Jóhannesson til starfa. Ólafur kaus að halda áfram með FH frekar en að fara yfir hæðina.

Heimir lét af störfum sem þjálfari Al-Arabi í Katar í sumar. Hefur hann beðið rólegur og átt viðræður við félög út um allan heim samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Heimir er hér á landi þessa dagana og var meðal annars staddur á landsleik Íslands og Liechtenstein á mánudag.

Búist er við að Stjarnan ráði þjálfara til starfa í vikunni. Takist ekki að sannfæra Heimi er talið næsta víst að Jón Þór Hauksson þjálfari Vestra taki við.

Ekki náðist í Helga Hrannarr Jónsson formann meistaraflokksráðs hjá Stjörnunni við vinnslu fréttarinnar þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.